Fóru með látinn eldri borgara á pósthús

AFP

Írska lögreglan hefur ákært mann sem fór með látinn eldri borgara á pósthús í því skyni að komast yfir lífeyri mannsins. 

Í frétt Sky News kemur fram, að tveir menn á fertugsaldri hafi upphaflega verið handteknir í tengslum við málið, en atvikið átti sér stað í liðinni viku. Búið er að sleppa hinum manninum úr haldi. 

Sá sem hefur verið ákærður í málinu átti að mæta fyrir dómara í dag. 

Sky News greinir frá því, að mennirnir hafi sl. föstudag farið með Peader Doyle á pósthús í bænum Co Carlow á Írlandi. Mennirnir fóru þegar starfsfólk pósthússins fór að gruna að það væri ekki allt með felldu og höfðu áhyggjur af heilsufari Doyles. Það kom svo í ljós að hann var látinn, en Doyle var 66 ára gamall. 

Mennirnir tveir voru nokkru síðar handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu. Öðrum þeirra var sleppt úr haldi í gær en hinn var ákærður fyrir athæfið, að því er fyrr segir. 

mbl.is