Mun tilnefna fyrstu þeldökku konuna í Hæstarétt

Biden hyggst standa við það að tilnefnda þeldökka konu í …
Biden hyggst standa við það að tilnefnda þeldökka konu í Hæstarétt. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun standa við loforð sitt um að tilnefna fyrstu þeldökku konuna í Hæstarétta Bandaríkjanna þegar sæti þar losnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Talið er að Stephen Breyer, einn af níu dómurum við réttinn, setjist í helgan stein í sumar. BBC greinir frá.

Hann er einn af þremur starfandi dómurum við Hæstarétt sem skipaður hefur verið af demókrötum og telst til frjálslyndra dómara við dómstólinn. Tilnefning Biden á nýjum dómara breytir því ekki vægi frjálslyndra og íhaldsamra dómara við Hæstarétt, en með skipuninni er hins vegar hægt að koma yngri dómara að sem gæti átt sæti næstu áratugina, þar sem um er að ræða skipun til lífstíðar.

Þrír líklegir kandídatar

Aðeins tveir þeldökkir karlmenn hafa verið skipaðir í Hæstarétt Bandaríkjanna en þetta yrði í fyrsta skipti sem þeldökk kona gegndi þar embætti.

Þrjár konur eru taldar líklegir kandídatar. Ketanji Brown Jackson, fyrrverandi aðstoðarkona Breyer, er talin líklegust til að fá tilnefningu forsetans. Í júní síðastliðnum var hún skipuð dómari við áfrýjunardómstól í Columbia.

Leondra Kruger hefur einnig verið orðuð við mögulega tilnefningu, en hún er dómari við Hæstarétt Kaliforníu. Sú þriðja er J Michelle Childs, dómari við ríkisdómstól Suður-Karólínu.

Þrýst á Breyer er að setjast í helgan stein

Starfslok Breyer hafa þó enn ekki verið staðfest, en demókratar hafa verið að þrýsta á hann að láta af embætti svo hægt sé að fylla sæti hans með yngri dómara á meðan forsetaembættið er höndum demókrata og þeir hafa meirihluta í öldungadeild þingsins. En öldungadeildin þarf að staðfesta tilnefningu forsetans. Breyer er 83 ára og elstur starfandi dómara.

Síðast losnaði sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna árið 2020 þegar frjálslyndi dómarinn Ruth Bader Ginsburg lést. Amy Coney Barrett var skipuð dómari í hennar stað eftir að þingið staðfesti tilnefningu Donald Trump. Barret þykir mjög íhaldssöm og með skipan hennar raskaðist vægi á milli frjálslyndra og íhaldsamra dómara enn frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert