Reistu styttu af Kobe og Giönnu

Styttan af Kobe Bryant og Giönnu dóttur hans.
Styttan af Kobe Bryant og Giönnu dóttur hans. AFP

Stytta af körfuboltamanninum Kobe Bryant og dóttur hans Giönnu Bryant hefur verið reist í minningu þeirra en feðginin fórust ásamt sjö öðrum í þyrluslysi 26. janúar 2020. The Guardian greinir frá.

Bronsstyttan, sem var reist þar sem slysið átti sér stað nálægt Los Angeles, sýnir Kobe halda utan um Giönnu og bæði eru þau klædd í körfuboltabúninga. Á stalli styttunnar eru grafin nöfn allra níu fórnarlamba slyssins. Einnig hefur fræg tilvitnun Bryant verið áletruð á stallinn og þar segir: „Hetjur koma og fara, en þjóðsögur eru að eilífu.“

Myndhöggvarinn Dan Medina sagðist vona að styttan mynd hjálpa mörgum aðdáendum Bryant og sagðist hann hafa orðið vitni að því í gær þegar styttan var reist að margir aðdáendur hefðu komið á slysstaðinn og yfirgefið hann ánægðari. En í gær voru tvö ár frá slysinu.

Nöfn allra sem fórust í slysinu voru áletruð á stallinn.
Nöfn allra sem fórust í slysinu voru áletruð á stallinn. AFP

Bryant, sem bjó á svæðinu mestan hluta ævi sinnar, ferðaðist oft með þyrlum og á slysdegi fór hann með Giönnu á körfuboltaleik fyrir utan borgina. Gianna var 13 ára þegar slysið varð.

Nicole Szuch-Dinets var ein af þeim tugum aðdáenda sem sem fór á slysstað í gær til að votta virðingu sína.

„Ég man þegar þetta gerðist. Við búum nálægt og við heyrðum í þyrlunni,“ sagði hún. „Og svo birtust fréttirnar í símanum mínum og við trúðum því ekki. Svo ég vildi koma af virðingu og mér fannst þessi stytta falleg. ”

mbl.is