Tónlist Youngs fjarlægð af Spotify

Samsett mynd af Young og Rogan.
Samsett mynd af Young og Rogan. AFP

Spotify er byrjað að fjarlægja tónlist eftir Neil Young af tónlistarveitu sinni eftir að rokkstjarnan bað hana að velja á milli sín og hlaðvarpsstjórnandans Joes Rogans.

BBC greinir frá þessu. 

Young sakaði Rogan um að veita rangar upplýsingar um Covid og sagði í framhaldinu við Spotify: „Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða.“

Rogan hefur verið gagnrýndur fyrir að taka viðtal við sérfræðing í smitsjúkdómum sem er andvígur bóluefnum gegn Covid-19 fyrir börn.

Spotify sagðist harma ákvörðun Youngs og vonast til að hann sneri fljótt aftur á streymisveituna.

Spotify er sagt hafa greitt 100 milljónir dollara, eða um 13 milljarða króna, fyrir réttinn á þættinum The Joe Rogan Experience árið 2020. Þátturinn er sá vinsælasti á Spotify og er sagður halaður niður næstum 200 milljón sinnum á mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert