Danir senda orrustuþotur vegna Rússa

Frá athöfninni í Litháen í dag, þar sem tekið var …
Frá athöfninni í Litháen í dag, þar sem tekið var á móti þotunum. AFP

Fjórar danskar F-16 orrustuþotur eru lentar í Litháen, eftir að yfirvöld landsins óskuðu eftir liðsauka í kjölfar liðssöfnunar rússneska hersins við landamæri Úkraínu.

Þessi ákvörðun stjórnvalda Danmerkur „kemur á hárréttum tíma“, sagði litháíski forsetinn Gitanas Nauseda við athöfn á flugherstöð í norðurhluta landsins.

Forsetinn Gitanas Nauseda sagði þoturnar koma á réttum tíma.
Forsetinn Gitanas Nauseda sagði þoturnar koma á réttum tíma. AFP

Fylgjast með lofthelginni

Þoturnar verða nýttar til að hafa eftirlit með lofthelgi landsins fram til 1. apríl, ásamt fjórum pólskum orrustuþotum sem hafa verið í Litháen frá 1. desember. Nokkrar æfingar hafa þegar verið áætlaðar.

„Þessi tími vekur virkilega miklar áhyggjur, ekki bara fyrir Litháen heldur öll bandalagsríki NATO,“ sagði Nauseda.

Sex bandarískar orrustuþotur lentu í Eistlandi fyrr í vikunni til að efla starf NATO þar.

mbl.is