Selja úr sér nýrun á svörtum markaði

Börn, konur og karlar bjóða nýrun sín til sölu til …
Börn, konur og karlar bjóða nýrun sín til sölu til þess að eiga í sig og á. Skjáskot af myndskeiði TOLO news

Fjölskyldur í héraðinu Herat í Afganistan, finna sig knúnar til að selja nýru sín á svörtum markaði fyrir lágt verð til þess að afla einhverra tekna í baráttu sinni við að eiga í sig og á. 

Íbúi í Herat sagði, í samtali við fréttastofuna TOLO news, að hann bjóði nýru sín og fjölskyldumeðlima sinna til sölu í von um að einhver vilji kaupa þau svo hann geti keypt mat fyrir börnin sín. 

Þá eru börn að selja úr sér nýrun jafnt sem fullorðnir, konur og karlar. Það voru einnig dæmi um slíkt fyrir ári síðan, fyrir valdrán talíbana, en fátæktin hefur aukist gífurlega. 

Viðskiptaþvinganir leitt til verðhækkana

Í Afganistan er ólöglegt að selja líffæri eða líkamshluta en fjölskyldurnar sjá ekki aðrar færar leiðir til að lifa af. 

„Við erum sátt, landið eru öruggt en verðin eru mjög há," er haft eftir öðrum íbúa í Herat. 

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands kveðst hafa þungar áhyggjur af ástandinu. Unnið sé að því að veita aukna mannúðaraðstoð og enn sé verið að koma fólki úr landinu eftir ýmsum ólíkum leiðum. 

Viðskiptaþvinganir og frysting milljarða bandaríkjadala í eigu ríkisins, hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagsástandið í landinu. Þá hefur Afganistan ekki aðgang að lánum frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum eftir að talíbanar náðu völdum. 

mbl.is