Vottar Jehóva sviptir ríkisstyrk

„Salur ríkisins“, húsnæði Votta Jehóva í Larvik í Noregi. Trúfélagið …
„Salur ríkisins“, húsnæði Votta Jehóva í Larvik í Noregi. Trúfélagið hefur verið svipt ríkisstyrkjum þar í landi vegna útskúfunar sóknarbarna sinna og grófra ásetningsbrota gegn lögum um trúfélög. Rannsóknarblaðamennskuþátturinn Brennpunkt á vegum NRK sýndi í fyrra þáttaröðina Guðs útvöldu þar sem farið var ofan í málefni nokkurra trúfélaga og hóf persónuvernd Noregs, Datatilsynet, í kjölfarið rannsókn á Vottum Jehóva og upplýsingasöfnun félagsins um kynhegðun þegna sinna. Ljósmynd/Wikipedia.org/Stenhaug

Embætti fylkismannsins í Ósló og Viken í Noregi hefur úrskurðað að trúfélag Votta Jehóva þar í landi skuli svipt árlegum styrkjum sínum úr ríkissjóði vegna útskúfunar sóknarbarna sinna fyrir mismunandi sakir, en embættið telur háttsemi stjórnenda Votta Jehóva brjóta gegn lögum um trúfélög, trossamfunnsloven eins og þau heita.

„Í kjölfar ábendinga fyrrverandi félagsmanna um útskúfun og útilokun sóknarbarna hefur barna- og fjölskylduráðuneytið farið þess á leit við embætti fylkismannsins í Ósló og Viken, að það kanni málatilbúnað og úrskurði trúfélagsins. Við þá athugun uppgötvaði embætti fylkismanns fjölda brota gegn lögum um trúfélög,“ segir í umfjöllun um málið á heimasíðu fylkismannsins.

Umfjöllun Brennpunkt vakti athygli

Það var kristilega dagblaðið Vårt Land sem fyrst greindi frá úrskurðinum gagnvart Vottum Jehóva, en í kjölfarið hafa fleiri norskir fjölmiðlar tekið málið til umfjöllunar, þar á meðal ríkisútvarpið NRK sem vitnar þar til nýlegrar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Brennpunkt, Guðs útvöldu, eða Guds utvalde, í nokkrum þáttum þar sem greint var frá þeim skilyrðum sem Vottar Jehóva settu sóknarbörnum sínum, svo sem að ungmennum væri þar gert að gera nákvæma grein fyrir kynhegðun sinni fyrir sérstökum dómstól trúfélagsins, en mbl.is fjallaði á sínum tíma ítarlega, með stoð í þáttaröðinni, um málefni annars trúfélags, Brunstad Christian Church, öðru nafni Smiths venner, sem rak dularfullan banka á Kýpur.

Að sögn embættis fylkismanns gengur útskúfun Votta Jehóva meðal annars út á að félögum er harðbannað að hafa nokkur samskipti eða samneyti við fólk sem horfið hefur frá félaginu. Hafi bann þetta í nokkrum tilfellum orðið til þess að þeir, sem yfirgefið hafa söfnuðinn, eigi þess ekki kost að hafa samband við fjölskyldu sína eða vini sem þar teljast enn innanbúðar.

Telur embætti fylkismanns téð bann Votta Jehóva skýrt brot gegn 2. gr. laga um trúfélög þar sem kveðið er á um, að félagsmaður slíks félags geti hvenær sem hann óski þess horfið frá félagi með skriflegri yfirlýsingu þar um, án nokkurra skilyrða eða fyrirvara af hálfu félagsins.

Talsmaður Skandinavíudeildar Votta Jehova, Fabian Fond, kveður úrskurð fylkismannsins vonbrigði og vísar málatilbúnaði embættisins á bug í tölvupósti til NRK: „Þessari niðurstöðu verður áfrýjað. Áfrýjunin gefur okkur kost á að útskýra nákvæmlega hvers vegna trú okkar og iðkun hennar ber óskoraða virðingu fyrir réttindum og frelsi annarra.“

Ritar Fond auk þess, að enginn félagsmanna sæti undir nokkrum kringumstæðum þrýstingi til að vera áfram félagi í Vottum Jehóva. „Vert er að nefna að dómstólar margra landa hafa slegið föstum rétti Votta Jehóva til að útiloka fólk sem ekki lifir lengur samkvæmt siðaboðum biblíunnar. Sem skráð trúfélag í Noregi hafa Vottar Jehóva notið réttar til ríkisstyrkja þar í meira en 30 ár,“ segir Fond í pósti sínum.

Kerfisbundin lögbrot framin af ásetningi

Í úrskurði fylkismannsins kemur það enn fremur fram að hann telji óviðunandi að trúfélagið tíðki útskúfun barna sem hlotið hafa skírn á vegum félagsins. „Það felur í sér möguleikann á að útskúfa börnum sem brjóta reglur trúfélagsins. Þetta teljum við neikvætt félagslegt taumhald sem skerðir réttindi barnsins,“ segir þar og enn fremur: „Við metum lögbrot þessi kerfisbundin og framin með ásetningi og höfum því ákveðið að synja um styrk.“

Gildir synjun fylkismannsins í Ósló og Viken um allan Noreg, samkvæmt skýringum sem Hege Skaanes Nyhus, deildarstjóri hjá embættinu, gaf mbl.is við eftirgrennslan í morgun, en höfuðstöðvar Votta Jehóva eru staðsettar innan lögsagnarumdæmis þess embættis og úrskurðar það því í málinu.

Málið nú hefur átt sér nokkurn aðdraganda, en Anette Trettebergstuen, þáverandi menningar- og jafnréttisráðherra Noregs, sagði árið 2019, að Vottar Jehóva brytu gegn mannréttindum og ættu skilið að missa alla styrki úr ríkissjóði.

Greindu frá nákvæmum yfirheyrslum um kynlíf

„Ég réð mér ekki fyrir kæti,“ segir Louise Myrland, fyrrverandi vottur, í samtali við NRK og vísar til þess er hún heyrði af úrskurði fylkismanns, „ég fór beint á samfélagsmiðlana og hafði samband við vini mína. Mér leið eins og ég hefði farið með sigur af hólmi.“ Greinir Myrland frá því, að sjálf hafi hún orðið fyrir barðinu á útskúfunarstefnu trúfélagsins og verið meinað að eiga samneyti við æskuvini sína og fjölskyldu.

Myrland var ein þeirra sem sögðu farir sínar ekki sléttar úr vistinni í véum Votta Jehóva í Brennpunkt-þættinum áðurnefnda, Guðs útvöldu, þar sem þær Ida Kårhus greindu frá nákvæmum yfirheyrslum dómstóls trúfélagsins um kynferðismál þeirra, en Datatilsynet, hin norska systurstofnun Persónuverndar, hóf í febrúar í fyrra rannsókn, í kjölfar sýningar þáttarins, á því hvort trúfélagið varðveiti upplýsingar um kynlíf þegna sinna.

„Tilhugsunin um að ég greiði skatta, sem meðal annars hafa runnið sem styrkur til trúfélagsins sem beitir útskúfun, hefur nagað mig síðan ég gekk út 21 árs gömul. Það hefur verið súrt í broti að styðja eitthvað sem hefur rænt mig gleðinni,“ segir Myrland enn fremur.

Verða af jafnvirði 230 milljóna

Valgerd Svarstad Haugland, fylkismaður í Ósló og Viken, segir að með breytingu á lögum um trúfélög hafi embætti hennar verið falið eftirlit með því að trúfélög færu að lögum. „Og þá kemur í ljós að þeir [Vottar Jehóva] beita útskúfunarreglum sem eru í trássi við landslög,“ segir Haugland við NRK og tekur sérstaklega fram að ærnar sakir þurfi til að svipta skráð trúfélag ríkisstyrkjum. „En í þessu tilfelli teljum við að málið sé á það alvarlegu stigi að okkur sé nauðugur einn kostur,“ segir hún og kveður ákvörðun embættisins byggjast á fjölda samtala við núverandi og fyrrverandi votta.

Samkvæmt tölum frá barna- og fjölskylduráðuneytinu voru skráðir félagar í Vottum Jehóva í Noregi 12.686 árið 2021 og verður félagið því af 16 milljónum norskra króna, jafnvirði 230 milljóna íslenskra króna, í krafti úrskurðarins. Er Vottum Jehóva kleift að öðlast réttinn til ríkisstyrksins á nýjan leik?

„Þá þurfa þeir að skoða nýju trúfélagalögin og fylgja bókstaf þeirra. Í kjölfarið þurfa þeir svo að leggja inn nýja umsókn um styrkinn,“ segir Haugland fylkismaður við NRK.

Vårt Land

NRK

NRKII (ríkið á að segja þvert nei)

NRKIII (rannsókn Datatilsynet)

Guðs útvöldu-þáttur Brennpunkt sem sneri að Vottum Jehóva 

Nettavisen

Agderposten

Úrskurður fylkismannsins í Ósló og Viken

mbl.is