Veisluhöldin í Downingstræti óviðeigandi

Johnson hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að sækja veislur meðan …
Johnson hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að sækja veislur meðan útgöngubann var í gildi. AFP

Veisluhöld hefðu ekki átt fara fram í Downingstræti 10 meðan útgöngubann var í gildi  og skortur virðist hafa verið á forystuhæfileikum og dómgreind, bæði í Downingstræti og á skrifstofu ríkistjórnarinnar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Sue Gray, sérstaks saksóknara, sem rannsakað hefur möguleg sóttvarnabrot vegna veisluhalda í Downingstræti 10. BBC greinir frá.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fékk skýrsluna í hendurnar í dag og er yfirlýsingar að vænta frá honum innan skamms.

Grey tekur fram að takmarkaðar upplýsingar komi fram skýrslunni þar sem Lundúnalögreglan hafi gert þá kröfu að hún hefði lágmarkstilvísun í þá viðburði sem lögreglan er með til rannsóknar. En Lundúnalögreglan hóf sjálfstæða rannsókn á mögulegum sóttvarnabrotum í síðustu viku. Þurfti Gray því að gera breytingar á sinni skýrslu.

Talsmaður forsætisráðherrans segir að skýrslan verði birt í þeirri mynd sem Gray skilaði inn.

Erfitt að réttlæta þessa hegðun

Í skýrslunni, sem telur 12 blaðsíður, kemur fram að sumar veislurnar hefðu ekki átt að eiga sér stað á meðan aðrar hefðu ekki átt að þróast eins og þær gerðu. Það að garðurinn í Downingstræti 10 hafi verið notaður undir veisluhöld án þess að leyfi hafi verið gefið og að skýr yfirsýn hafi verið til staðar, hafi ekki verið viðeigandi.

Gray tekur jafnframt fram að aldrei sé viðeigandi að hafa áfengi um hönd vinnustað.

Þá segir í skýrslunni að erfitt sé að réttlæta þá hegðun sem viðhöfð var í tengslum við samkomurnar í Downingstræti, á sama tíma og almenningur hafi þurft að sæta hörðum aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. 

Í sumum veislunum hafi fólk í æðstu stöðum brugðist þeim væntingum sem gerðar eru til þeirra og svo virðist sem lítill gaumur hafi verið gefinn af því sem hafi verið að gerast í samfélaginu. 

Einhverjir hafi viljað gera athugasemdir við þá hegðun sem þeir urðu vitni að, en fannst þeir ekki geta það. „Enginn starfsmaður á að upplifa það að hann geti ekki tilkynnt eða gert athugasemdir við það sem honum finnst óviðeigandi. Það á að vera formlegur vettvangur fyrir slíkar tilkynningar,“ segir í skýrslunni.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert