Fólk yfir áttrætt fái fjórða skammtinn

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar.
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð mæla með því að fólk yfir áttrætt, þeir sem eru á hjúkrunarheimilum og þeir sem fá heimaþjónustu, fái fjórða skammtinn af bóluefni gegn kórónuveirunni.

Fram kemur í tilkynningu að bólusetningin fari í fyrsta lagi fram fjórum mánuðum eftir að síðasti skammtur var gefinn.

„Útbreiðsla Covid-19 er enn mikil í Svíþjóð. Greint hefur verið frá auknum fjölda tilfella undanfarnar vikur, meðal annars hjá fólki sem er þegar í aukinni hættu á alvarlegum veikindum,“ sagði í tilkynningunni.

„Með aldrinum dregur úr getu ónæmiskerfisins til að bregðast við bólusetningunni og byggja upp varanlega vernd,“ sagði þar einnig.

„Örvunarskammtur eflir þessa vörn,“ sagði sóttvarnalæknir landsins, Anders Tegnell.

85% bólusett þrívegis 

Rúmlega 85% þeirra sem eru yfir 80 ára hafa verið bólusettir þrívegis gegn veirunni og 55% þeirra sem eru yfir 18 ára.

Öllum takmörkunum í Svíþjóð var aflétt 9. febrúar þrátt fyrir aukinn fjölda Ómíkron-tilfella.

Yfir 16.500 manns hafa látist af völdum Covid-19 í landinu. Dánarhlutfallið er lítillega undir meðaltalinu í Evrópu en mun hærra en í nágrannalöndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert