„Við viljum einangra Rússland fjárhagslega“

Christian Lindner (t.v.) og Bruno Le Maire (t.h) ræddu við …
Christian Lindner (t.v.) og Bruno Le Maire (t.h) ræddu við fjölmiðla í morgun. AFP

Evrópusambandið vill skera á öll tengsl Rússlands við efnahagskerfi heimsins, að sögn Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, í kjölfar þess að sambandið samþykkti frekari refsiaðgerðir gegn Rússlandi í morgun. 

Refsiaðgerðirnar eru tilkomnar vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þær verða í takt við hertar refsiaðgerðir Breta og Bandaríkjamanna. 

„Við viljum einangra Rússland fjárhagslega. Við viljum þurrka upp fjármagnið,“ sagði Le Maire.

Neyðarúrræði að svipta Rússa SWIFT

Christian Lindner, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði við sama tilefni að „í einstaka tilvikum verður áfram hægt að senda greiðslur til Rússlands, til dæmis fyrir gasafgreiðslu.“

Báðir ráðherrarnir sögðu að það að svipta Rússa SWIFT-banka­kerf­inu væri enn möguleiki en að það væri algjört neyðarúrræði. Því hefur ákvörðun um slíkt ekki verið tekin enn. 

„Við erum nú þegar með algjöra tálmun á viðskiptum við rússneska banka. Viðskipti við Rússland eru svo gott sem í algjörri biðstöðu,“ sagði Lindner.

Þá bætti hann því við að frekari refsiaðgerðir séu mögulegar. „En vega verður afleiðingar þeirra, hugmyndin er að aðgerðirnar hafi afleiðingar fyrir rússneskt efnahagskerfi, frekar en að valda Evrópu skaða.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is