Svakaleg læti í nótt

Íbúar í Kænugarði hafa leitað skjóls í tveggja hæða bílakjallara …
Íbúar í Kænugarði hafa leitað skjóls í tveggja hæða bílakjallara í byggingu sinni. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Það voru svaka læti í nótt, alveg svakaleg læti. Þetta var þvílík stórskotahríð,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljós­mynd­ar­i og mynd­list­armaður, sem bú­sett­ur er í Kænug­arði, höfuðborg Úkraínu.

Harðir bardagar voru í Kænugarði í nótt en úkraínskar hersveitir stóðust áhlaup Rússa sem reyndu að ná höfuðborginni á sitt vald.

Óskar Hallgrímsson.
Óskar Hallgrímsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óskar segir að hann og eiginkona hans, sem búsett eru í miðborginni, hafi verið uppgefin í gærkvöldi og náð að sofna fyrir miðnætti. Hann hafi vaknað öðru hvoru í nótt við mestu sprengjusmellina.

Allt með kyrrum kjörum eftir sólarupprás

Svo rétt fyrir sex í morgun var allt brjálað hérna. Um leið og sólin kom upp þagnaði allt og hefur verið þögult síðan,“ segir Óskar.

Hann segir að Rússar hafi reynt að senda flugskeyti á Zhuliani-flugvöll í suðvesturhluta borgarinnar í nótt en sú flaug hafnaði á íbúðablokk í grennd við flugvöllinn. Óskar segir að margir hafi verið búnir að yfirgefa blokkina og því hafi sem betur fer ekkert mannfall orðið.

Rússneskt loftskeyti hæfði íbúðablokkina sem sjá má á þessari mynd.
Rússneskt loftskeyti hæfði íbúðablokkina sem sjá má á þessari mynd. AFP

Hann bendir á að úkraínski herinn sé að standa sig mjög vel, mun betur en Rússar bjuggust líkast til við og telur að Rússum gangi verr en þeir bjuggust við.

Fara ekki nema þau séu neydd til þess

Ekkert fararsnið er á Óskari og eiginkonu hans en hann telur öruggara að að bíða í miðborginni en að leggja af stað út í óvissuna. Ferðalagið frá höfuðborginni til vesturhluta Úkraínu taki um það bil sólarhring og óvíst sé hvort allir komist á leiðarenda.

„Við tókum ákvörðun um það í gær að fara ekki nema við séum 100% neydd til þess. Við erum á það öruggum stað hérna og myndum bara enda á vergangi í Vestur-Úkraínu. Við myndum leggja okkur í miklu meiri hættu við það,“ segir Óskar.

Eyðileggingin blasir víða við í Kænugarði eftir nóttina.
Eyðileggingin blasir víða við í Kænugarði eftir nóttina. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina