Skipulagðar árásir á óbreytta borgara?

Rússneski flugherinn framkvæmdi miskunnarlausar árásir á óbreytta borgara í Aleppo. …
Rússneski flugherinn framkvæmdi miskunnarlausar árásir á óbreytta borgara í Aleppo. Sérfræðingar telja það geta endurtekið sig í Úkraínu. AFP

Greinendur telja rússnesk yfirvöld hafa skipulagt aðgeðir sem fela í sér beitingu vopna af ásetningi gegn óbreyttum borgurum. Slíkum aðferðum hafa Rússar beitt áður í Sýrlandi og Tsétséníu.

Þetta fullyrðir Sam Ashworth-Hayes, hjá Henry Jackson Society hugveitunni í Bretlandi, í grein í Spectator. Vísar hann til þess að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hafi þegar beitt sömu orðræðu og Rússar beittu til að réttlæta miskunnarlausar loftárásir á Aleppo í Sýrlandi árið 2016.

Þá verði markmiðið að „eyðileggja borgir – hverfi eftir hverfi – þar til Selenskí forseti [Úkraínu] gefst upp“, skrifar hann.

Hernaðaraðgerðir stjórnar Bashar al Assads í Sýrlandi og rússneskra yfirvalda gegn almennum borgurum í Aleppo árið 2016 hafa verið taldar hluti af skipulagðri herferð með markmið um að draga úr stuðningi almennra borgara við sýrlenska uppreisnarmenn og fá þá til að yfirgefa borgina til að forða almennum borgurum frá frekari harmleik, eins og fram kom í umfjöllun New York Times og Guardian.

Sýrlenskur drengur grætur við lík ættingja síns sem féll í …
Sýrlenskur drengur grætur við lík ættingja síns sem féll í loftárás í Aleppo 2016. AFP

„Í Sýrlandi gerðu Rússar loftárásir á sjúkrahús, bílalestir með birgðir til mannúðarmála og borgaraleg skotmörk sem þeir fullyrtu að hjálpuðu uppreisnarmönnum,“ rita greinendur stofnunarinnar Center for Strategic and International Studies, Seth G. Jones og Joseph S. Bermudez, á vef hennar.

Vekja þeir athygli á að Rússar hafa miskunnarlaust beitt miklu afli gegn vígamönnum og almennum borgurum í Tsétséníu og Sýrlandi og muni hiklaust beita sömu aðferðum á ný í Úkraínu.

Þeir segja jafnframt að aðgerðir rússneska hersins verði „afdráttarlausar og grimmar“ með tilheyrandi harmleik fyrir íbúa helstu borga Úkraínu.

Tugir þúsunda í valnum í Grosní

Fjöldi stórra borga er í Úkraínu og getur tekið töluverðan tíma fyrir Rússa að ná stjórn á borgunum og mun mannfall vera umfangsmikið að mati greinendanna.

Vakti Jones í janúar athygli á því að í fyrra Tsétséníustríðinu hafi rússneski herinn verið lengi að ná yfirráði yfir borginni Grosní, frá 31. desember 1994 til 9. febrúar 1995, en á þeim tíma var íbúafjöldinn innan við 400.000 og er talið að allt að 27 þúsund óbreyttir borgarar hafi legið í valnum eftir átökin.

Í seinna Tsétséníustríðinu var baráttan um borgina einnig tímafrek og stóð yfir frá desember 1999 til febrúar 2000. Hermenn Rússlands fóru aftur á móti ekki inn í borgina fyrr en eftir að stórskotalið hafði skotið á borgina í um fimm mánuði og er talið að um fimm til átta þúsund óbreyttir borgarar hafi fallið í þeim átökum.

Ætti ekki að gerast aftur

Í Kænugarði búa um þrjár milljónir, 1,5 milljón í Karkív, um milljón búa í Ódessa, milljón í Dnípro, 750 þúsund íbúar eru í Saporisjsía og um hálf milljón í Maríupol. Verði átökin í líkingu við þau sem voru í Aleppo og Grosní er ekki ólíklegt að fleiri munu líggja í valnum en sést hefur um árabil.

Þá telur Jones mikilvægt að starf félagasamtaka og Alþjóðaglæpadómstólsins verði samræmt og skipulagt þannig að skrásettir verði allir stríðsglæpir sem beittir eru úkraínsku þjóðinni.

„Það sem kom fyrir sýrlensku þjóðina ætti ekki að gerast aftur,“ skrifar hann.

Mikið eyðilögð íbúðabygging í Kænugarði eftir loftárás Rússa.
Mikið eyðilögð íbúðabygging í Kænugarði eftir loftárás Rússa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert