Úkraínumenn leita skjóls fjarri Rússlandi

Fólk á flótta frá Úkraínu sækir um dvalarleyfi í höfuðstöðvum …
Fólk á flótta frá Úkraínu sækir um dvalarleyfi í höfuðstöðvum lögreglunnar í Prag í Tékklandi í gær. Nærri 900 þúsund manns hafa flúið landið. AFP

Mikill fjöldi fólks hefur neyðst til að flýja heimili sín í Úkraínu frá því að Rússar réðust inn í landið fyrir viku. Nærri níu hundruð þúsund manns eru þegar taldir hafa yfirgefið Úkraínu samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.

Gert er ráð fyrir að sendinefndir beggja ríkja komi saman til friðarviðræðna á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands í dag, en ekkert varð af fyrirhuguðum viðræðum í gærkvöldi.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun á komandi dögum ferðast til Belgíu, Póllands, Eystrasaltsríkjanna og Moldavíu til að ítreka stuðning stjórnvalda í Washington við Úkraínu, að því er ráðuneyti hans greindi frá í gærkvöldi.

Á blaðamannafundi sagði hann að „ögrandi orðræða“ Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta um kjarnavopn væri „hámark ábyrgðarleysis“, en forsetinn setti kjarnavopnasveitir landsins í viðbragðsstöðu á sunnudag. „Þetta er hættulegt. Þetta eykur hættuna á misreikningi. Þetta þarf að forðast,“ sagði Blinken.

Nýtt skeið hafið í Evrópu eftir innrás Rússa

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sína í sjónvarpsútsendingu í gær og sagðist myndu ræða við Pútín eins oft og þyrfti, til að fá hann til að stöðva stríðið. Þeir ræddust síðast við á mánudag í níutíu mínútur.

Macron tjáði þjóð sinni í ávarpinu að nýtt skeið væri hafið í Evrópu eftir innrás Rússlands í Úkraínu og að álfan þyrfti að fjárfesta í vörnum sínum og sjálfstæði í orkumálum.

„Nú þegar hefur Evrópa okkar sýnt einingu og staðfestu. Við erum komin inn í nýtt skeið,“ sagði forsetinn. En hann varaði sömuleiðis við: „Komandi dagar munu að líkindum verða erfiðari og erfiðari.“

Rússar sögðust í gær hafa hertekið hafnarborgina Kerson. Ef rétt reynist er stórborgin sú fyrsta í Úkraínu sem þeir hafa náð á sitt vald. Allsherjarþing SÞ samþykkti þá að krefjast þess að rússneskt herlið yfirgæfi landið tafarlaust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert