Loka fyrir Facebook í Rússlandi

Rauða torgið í Moskvu stendur lokað svo ekki sé hægt …
Rauða torgið í Moskvu stendur lokað svo ekki sé hægt að mótmæla þar. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa lokað fyrir aðgang borgara sinna að samfélagsmiðlinum Facebook. Þetta gerðu þau í dag, auk þess sem tilkynnt voru hörð fangelsisviðurlög við því að birta svokallaðar falsfréttir um rússneska herinn.

Stjórnvöld reyna með þessu að minnka þá óánægju sem farið hefur vaxandi í landinu vegna innrásar Rússa í Úkraínu og þeirra viðskiptaþvingana sem Vesturlönd hafa beitt landið í kjölfarið.

„Milljónir venjulegra Rússa munu brátt missa tengslin við áreiðanlegar upplýsingar, og verður meinað að tala upphátt,“ segir Nick Clegg, sem fer fyrir alþjóðamálum hjá fyrirtækinu Meta, sem rekur miðilinn.

Stjórnvöld í Kreml hafa undanfarna daga sótt hart að frjálsum fjölmiðlum og hefur þeim mörgum verið lokað.

mbl.is