Rússar fá liðsstyrk frá Sýrlandi

Úkraínskur hermaður stendur vörð við hlið skriðdrekavarna í miðborg Kænugarðs.
Úkraínskur hermaður stendur vörð við hlið skriðdrekavarna í miðborg Kænugarðs. AFP

Yfirvöld í Kreml hafa ráðið til sín sýrlenska hermenn sem eru vanir að berjast innan borgarmarka til að aðstoða við stríðið í Úkraínu, þar sem útlit er fyrir að innrás Rússa nái lengra inn í borgir þar í landi.

Þetta kemur fram í grein The Wall Street Journal.

Bandarískir embættismenn telja að þetta sé leið Rússa, sem hafa haft afskipti innan Sýrlands síðan 2015, til að hertaka Kænugarð og koma þungu höggi á Úkraínu. Þetta gæti orðið vendipunktur í stríðinu. Óljóst er um hve marga sýrlenska hermenn ræðir en sumir eru nú þegar í Rússlandi að undirbúa þátttöku í stríðinu.

Fréttir frá borginni Deir ez-Zor í Sýrlandi herma að sjálfboðaliðum í landinu hafi verið boðið á milli 200 og 300 dollara, eða 26-40 þúsund krónur, frá rússneskum stjórnvöldum til að „fara til Úkraínu og starfa þar sem verðir“ í hálft ár í senn.

„Innflutningur Rússa á sýrlenskum hermönnum til Úkraínu alþjóðavæðir stríðið sem gæti tengt það við stærri deilur á landsvæðum, sérstaklega í Mið-Austurlöndum,“ segir Jennifer Cafarella, þjóðaröryggisfulltrúi stofnunar stríðsrannsókna (e. Institue for the Study of War), í Washington-borg.

Auk Sýrlendinga hafa hermenn frá Tsétséníu einnig aðstoðað Rússa í stríðinu, samkvæmt viðtali Reuters við Ramsan Kadírov, leiðtoga Tsétséna.

Úkraínu hefur einnig borist liðsauki frá öðrum löndum. Að sögn Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu, hafa 16 þúsund útlendingar boðist til þess að berjast fyrir Úkraínu en hann hefur lýst hópnum sem „alþjóðlegri hersveit“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert