Hætta kaupum á eldsneyti frá Rússlandi

Joe Biden í ræðunni í dag þar sem hann bannaði …
Joe Biden í ræðunni í dag þar sem hann bannaði allan innflutning á eldsneyti frá Rússlandi. AFP

Í sjónvarpsræðu sem Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt í dag í Hvíta húsinu sagði hann að Pútín myndi aldrei vinna stríðið í Úkraínu meðan heimurinn fylgdist með í hryllingi og reiði yfir hörmungum úkraínsku þjóðarinnar. Hann var harðorður í garð rússneskra yfirvalda og sagði að nú væru þegar tvær milljónir manna á flótta út af innrásinni og kostnaðurinn fyrir Úkraínu væri hræðilegur og einnig fyrir heiminn allan.

„Pútín mun aldrei vinna þetta stríð“

„Yfirvöld í Rússlandi eru að kremja Úkraínu með hræðilegum afleiðingum, en það er alveg ljóst að Pútín mun aldrei vinna þetta stríð,“ sagði hann og tilkynnti bann á kaupum á eldsneyti frá Rússlandi. „Pútín getur náð borg á vald sitt, en hann nær aldrei allri Úkraínu,“ bætti hann við.  

Þrátt fyrir fordæmalausar refsiaðgerðir gegn Rússum hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti haldið áfram að sprengja í Úkraínu, þrátt fyrir samþykki fyrir loforð um lofthelgi á fyrirframákveðnum flóttaleiðum úr borgum Úkraínu. Yfirvöld í Kænugarði hafa sagt að allt tal Rússa um flóttaleiðir sé bara fjölmiðlabrella þar sem flóttaleiðirnar sem Rússar leggja til liggja allar til Rússlands eða vinaþjóðarinnar, Hvíta-Rússlands.

Lofar aðstoð við flóttamenn

Biden lofaði í ræðunni að hjálpa Evrópu að kljást við flóttamannakrísuna, en allt stefnir í að hún verði sú mesta í álfunni frá seinni heimsstyrjöldinni, skv. Upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. „Bandaríkin munu taka þátt í kostnaði við að hugsa um flóttamennina svo kostnaðurinn lendi ekki eingöngu á Evrópulöndunum sem eiga landamæri að Úkraínu.“

Ómældar þjáningar almennra borgara

Hann hélt áfram og sakaði Pútín um að gera engan mun á hernaðarskotmörkum og íbúðahúsum, sjúkrahúsum og skólum almennra borgara. „Stríð Pútíns hefur kostað Úkraínu ómældar þjáningar og tilgangslausan dauða saklausra borgara, kvenna, barna og allra. En Pútín virðist harðákveðinn að halda áfram þessum morðum, sama hvað það kostar.“

Hernaðaraðstoð í forgangi

Altalað er í Washington að Bandaríkjastjórnvöldum sé mikið í mun að stríðið breiðist ekki víðar frá Úkraínu og forðast allt sem gæti orðið til þess að Pútín gæti hugsanlega beitt kjarnorkuvopnum. Einnig er talið að Rússar séu að búa sig undir að stríðið dragist á langinn og þess vegna setji Bandaríkjamenn hernaðaraðstoð við Úkraínu í forgang.

Biden klykkti út með því að segja að sagan myndi sýna að stríðið í Úkraínu myndi veikja stöðu Rússlands í samfélagi þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert