Hrædd um að Kína feti í fótspor Rússa

Um 400 varaliðsmenn í her Taívans tóku þátt í skotæfingu í dag.

Fór æfingin fram í kjölfar þess að forseti landsins, Tsai Ing-wen, kallaði eftir samheldni landsmanna þrátt fyrir mikla spennu í samfélaginu vegna hættu á innrás Kína inn í landið. Innrás Rússa í Úkraínu hefur aukið áhyggjur íbúa Taívans til muna.  

Á æfingunni var líkt eftir því að varin væri strönd nálægt Taipei, höfuðborg Taívans, og því ljóst að taívanski herinn býr sig undir mögulega innrás frá meginlandinu.  

Forseti Taívan, Tsai Ing-wen, skoðar byssu við æfingar hersins
Forseti Taívan, Tsai Ing-wen, skoðar byssu við æfingar hersins AFP

Máttur fólksins ekki takmarkaður

Undirherforingi í taívanska hernum, Chen Chung-chi, undirstrikaði mikilvægi varaliðsmanna í hernum í viðtali við fréttastofu AFP í dag.

„Öryggi landsins er ekki aðeins í höndum hermannanna. Í Úkraínu sjáum við hermenn á vígvellinum en þar að auki almenna borgara. Máttur hersins er takmarkaður en máttur fólksins er það ekki.”

Tólf kínverskar orrustuþotur hafa flogið í gegnum lofthelgi Taívans í dag en það hefur ekki gerst oftar á einum degi í þessum mánuði. Spennan á milli Taívans og Kína eykst því með hverjum deginum en Kína lítur á Taívan sem hluta af Kína sem þarf að ná tökum á, með valdi ef þess þarf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert