Trump fer í mál við Clinton

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Myndin er frá 2020.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Myndin er frá 2020. AFP/SAUL LOEB

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur höfðað mál gegn Hillary Clinton, framámönnum Demókrataflokksins og öðrum á þeim forsendum að þau hafi ranglega ásakað hann um að hafa verið í samráði við rússnesk stjórnvöld fyrir kosningarnar 2016. Trump sækist eftir réttarhöldum og að minnsta kosti 72 milljónum bandaríkjadala í skaðabætur.

BBC greinir frá. 

Hillary Clinton tapaði fyrir Donald Trump í forsetakosningunum 2016. Myndin …
Hillary Clinton tapaði fyrir Donald Trump í forsetakosningunum 2016. Myndin er tekin árið 2020. AFP/DAVID GANNON

„Í aðdraganda forsetakosninganna 2015 bjuggu Hillary Clinton og fylgisveinar hennar til ótrúlega ósvífna fléttu, sem er móðun við lýðræði þjóðarinnar,“ segir í kærunni sem var lögð fyrir alríkisdómstól í Flórída í dag.

Watergate bliknar í samanburði

„Þeir ákærðu voru samstíga og af illum vilja að búa til falska sögu um að andstæðingur þeirra, Donald J. Trump væri í samráði með fjandsamlegu erlendu ríki. Eini tilgangurinn var að mála upp svívirðilega mynd af Donald J. Trump til að græða á því.“

Einnig segir í kærunni að ákærðir hafi falsað sönnunargögn, slegið ryki í augu lögreglu og nýtt sér aðgang að viðkvæmum gögnum og að Watergate blikni í samanburði.

Skjöl með mörgum fölskum staðhæfingum

Auk Clinton er John Podesta, kosningastjóri Clinton 2016 og fyrrverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar James Comey ákærðir ásamt Christopher Steel, fyrrverandi leyniþjónustumanni Breta sem lagði fram skjöl með neikvæðum upplýsingum um Trump.

Margoft hafði Trump lýst því yfir að skjölin væru fölsuð og New York Times komst að þeirri niðurstöðu að margar ásakanirnar í skjölunum væru ekki byggðar á nægilegum sönnunargögnum.

Rússneskur greinandi sem hafði hönd í bagga í ritun skjalanna hefur verið ákærður í Bandaríkjunum fyrir að ljúga að alríkislögreglunni þegar verið var að rannsaka málið.

Lagafyrirtækið Perkins Coie sem vann fyrir kosningaherferð Clintons og Fusion GPS, einkafyrirtæki sem vann í því að rannsaka andstæðinginn eru líka kærð.

Fyrrverandi formaður alríkislögreglunnar, Robert Mueller, sem rannsakaði áhrif Rússa á kosningarnar 2016 sýndi fram á marga fundi milli ráðgjafa Trumps og Rússa. Hann komst þó að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um „samráð“að ræða.

Ekkert samráð við Rússa

Skýrsla á vegum repúblikana sýndi einnig marga fundi milli Rússa og starfsfólks kosningabaráttu Trumps, en komst að sömu niðurstöðu um að ekki hefði verið um ólögmæt samráð að ræða. Í þeirri skýrslu kom í ljós að fyrrverandi kosningastjóri Trump, Paul Manafort, átti í langtímasamskiptum við Konstantik Kilimnik, rússneskan leyniþjónustumann og að hann hefði gefið Kilimnik upplýsingar um kosningabaráttuna.

Samsett mynd af Donald Trump fv. Bandaríkjaforseta, Bill Barr, fv. …
Samsett mynd af Donald Trump fv. Bandaríkjaforseta, Bill Barr, fv. ríkissaksóknara og Robert Mueller, fv. forstjóra alríkislögreglunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert