„Ég er algjörlega tómur tilfinningalega“

Sergei býr í Lvív í vesturhluta landsins, en í gær …
Sergei býr í Lvív í vesturhluta landsins, en í gær gerðu Rússar loftárás á borgina, sem hingað til hefur að mestu sloppið við slíkar árásir. Ljósmynd/Sergei

Þrátt fyrir jákvæðni um árangur Úkraínumanna í stríðinu almennt, reynir enn á andlegu hliðina hjá íbúum landsins, eins og sjá má í þeim dagbókarfærslum sem nokkrir íbúar senda mbl.is reglulega.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í austur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upplifunum sínum og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Laugardagur 26. mars

Sergei í Lvív

Þrítugasti og fyrsti dagur stríðsins. Einn þyngsti dagurinn á síðustu vikum. Rússar gerðu tvær eldflaugaárásir á heimaborg mína í dag. Þetta er eins og rúlletta, þú veist ekki hvaða númer kemur upp eða hvar sprengjurnar falla. Sú fyrsta sprakk nálægt skrifstofunni þar sem ég starfa. Flóttafólk býr þar núna og sem betur fer varð engum meint af.

Tilfinningin segir mér að fljótlega verði fleiri eldflaugaárásir gerðar á borgina og við munum sjá fólk falla af þeirra völdum. Enginn mun komast ósnertur frá þessu stríði og enginn er öruggur. Ég veit hins vegar að mótspyrna okkar verður öflug og ég þreytist ekki á að endurtaka að við munum aldrei gleyma né fyrirgefa. Við munum hefna fyrir þessa þjáningu og tár. Ég mun alla vega persónulega passa upp á að láta engan gleyma þessu stríði sem talar um „góða Rússa“. Við munum borga fyrir frelsi okkar innan Evrópu með eigin blóði.

Staðan: Ég er algjörlega tómur tilfinningalega.

Jaroslav og félagar hans í Potreba-hópnum. Jaroslav segist vona að …
Jaroslav og félagar hans í Potreba-hópnum. Jaroslav segist vona að þeir geti komið saman aftur eftir að stríðinu ljúki.

Jaroslav í Ódessu

Við hófumst handa strax fyrir sólarupprás í dag. Nokkrir félagar mínir frá heimavarnarliðinum þurftu flutning á söfnunarsvæði varnarliðsins og við skutluðum. þeim. Þá tókum við einnig með tvo stóra poka af kartöflum og eitthvað góðgæti fyrir félaga þeirra.

Næst komum við við hjá konu sem var hjá móður sinni á geðdeild, en gamla konan þurfti hækjur. Eftir það skipulögðum við og fórum með heita máltíð til sextíu eldri borgara. Það hafa margir aðstoðað okkur í þessu og mig langar að þakka þeim öllum fyrir stuðninginn.

Þegar ég kom heim kom yfir mig smá nostalgíukast varðandi fortíð mína sem tónlistarmaður og vonandi framtíð mína sem slíkur. Meðan ég skrifa þetta er ég að hlusta á tónleikaupptöku sem við munum vonandi ná að gefa út síðar. Við vorum meira að segja tilnefndir í einni keppni hér í Úkraínu áður en stríðið hófst og ætluðum að taka upp efni til að gefa út á vínylplötu, en við vegna tilnefningarinnar fengum við tíma í upptökustúdíói. Vonandi mun okkur í Potreba-hópnum takast að koma fram síðar.

Karíne hefur undanfarið veitt okkur nokkra innsýn inn í hefðbundinn …
Karíne hefur undanfarið veitt okkur nokkra innsýn inn í hefðbundinn mat sem hún og maðurinn hennar borða, ekki síst núna þegar sumar vörur eru af skornum skammti. Í gær bakaði hún meðal annars þetta brauð. Ljósmynd/Karíne

Karíne í Karkív

Í dag fóru loftvarnaflauturnar af stað áður en klukkan varð 6 í morgun. Hins vegar var engin loftárás á Karkív í dag, en í staðinn skutu Rússar sprengjum á Lvív. Það er því engin borg alveg örugg í Úkraínu eins og sakir standa. Eftir að loftvarnaflauturnar þögnuðu var næstum því algjör þögn hér í morgun.

Ég og nágranni minn fórum í göngutúr og komum við í búð sem er nokkrar húsalengdir í burtu. Við höfum lítið náð að fara út saman að ganga í þessum mánuði, en í dag ákváðum við að fara lengra en alla jafna og sáum meðal annars fjölda fólks í biðröð eftir mannúðaraðstoð

Eins og alla daga heyri ég í vinafólki okkar sem lagði á flótta. Í dag talaði ég meðal annars við vin okkar hjóna sem bjó ásamt fjölskyldu sinni í Dergatjsí. Það er lítill bær í nágrenni Karkív og eftir að miklir bardagar brutust þar út ákvað fjölskyldan að flýja. Eiginkona hans og barn eru nú í Tékklandi, en hann er í vesturhluta Úkraínu. Þar er hann nú að sinna sjálfboðastarfi og aðstoðar við að koma mannúðaraðstoð til Karkív.

Stórskotaliðsárásir Rússa halda áfram á Karkív og í fréttunum í dag var sagt frá því að slíkar árásir hefðu eyðilagt helfararminnismerki í Drobitskí Yar, í einu úthverfa Karkív. Rússar eru hinir raunverulegu nasistar og það er ekki hægt að taka mark á orðum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert