Síldin vinsæl, jafnvel í miðju stríði

Karine og nágrannakona hennar Lilia, en Lilia hafði átt þá …
Karine og nágrannakona hennar Lilia, en Lilia hafði átt þá ósk að fá aftur að borða síld og uppfylltist sú ósk hennar í gær. Ljósmynd/Karine

Jaroslav segir að hann finni fyrir miklum stuðningi erlendis frá og að sá stuðningur hjálpi til við að sjá tilganginn í að halda baráttunni áfram. Í austurhluta Úkraínu snjóaði og hávaði í veðrinu varð til þess að lítið heyrist í áframhaldandi stórskotaliðsárásum Rússa á Karkív.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Karíne í Karkív

Veðrið breyttist í nótt og það varð kaldara. Hávaðinn frá rigningu og vindi kom í veg fyrir að við heyrðum nokkuð í stórskotaárásum, en Rússar héldu þeim árásum samt áfram á borgina. Í dag snjóaði svo og á tíma var hér snjóstormur. Vegna þessa var göngutúr dagsins mjög stuttur.

Nágrannakona mín hún Lilia elskar saltaða síld og var búin að biðja eiginmann minn um að kaupa slíkan fyrir sig í búðinni ef hann væri í boði. Í dag var ósk hennar uppfyllt þegar hann fékk tvær síldir fyrir okkur og tvo aðra nágranna okkar. Lilia var mjög ánægð, en okkur finnst líka síldin góð. Oftast borðum við síldina með soðnum kartöflum, en inn á milli geri ég rétt sem kallast „síld undir loðdýrakápu,“ en loðdýrakápan er lag af soðnu grænmeti með majónessósu. Ég bakaði einnig í dag heimagert súrdeigsbrauð og bauð nágranna okkar í smakk.

Við heyrðum í stórskotaárásum þegar leið á daginn og svo hafði ég samband, eins og alla aðra daga, við vini og kunningja til að heyra hvernig staðan væri.

Úkraína skipti í dag yfir á sumartíma og klukkan 6 í kvöld þegar útgöngubannið hófst var enn nokkuð bjart. Við erum einum degi nær sumri og einum degi nær sigri. 

Sergei í Lvív

Þrítugasti og annar dagur stríðsins. Ég fór í skoðun hjá lækninum í dag eftir aðgerðina í síðustu viku. Hann sagði að endurhæfingin gengi vel, en ég get þó enn ekki gert neitt sem reynir mikið á. Á heildina litið sagði hann útlitið samt gott.

Gamall vinur kom í heimsókn í dag og við vörðum hálfum deginum að ræða um allskonar málefni og hlusta á tónlist saman. Ég fór svo í heimsókn til foreldra minna og ræddi við þau um plön fyrir komandi tíð. Ræddi svo við samstarfskonu, en í gær þegar Rússar skutu flugskeyti á borgina var hún nálægt sprengingunni og var enn í uppnámi vegna þess. Vonandi nær hún að jafna sig fljótt. Það er annars ljóst að við þurfum að fara að undirbúa okkur undir það versta hér í Lvív.

Staðan: Langaði í áfengislausan bjór en því miður er alveg ómögulegt að kaupa slíkan.

Jaroslav í Ódessu

Ég hef undanfarið heyrt mikið af jákvæðum fréttum erlendis frá. Fólk sem býr erlendis hefur hringt í mig eða sett sig í samband við okkur og spurt hvernig það geti aðstoðað, bæði með að safna fjármunum en líka við að taka á móti flóttafólki. Það er greinilegt að fjöldi fólks erlendis finnur fyrir þessum sársauka með okkur. Kannski er enginn staður í heiminum sem hefur ekki heyrt um ástandið hér.

Allir þessir sem hafa haft samband til að reyna að hjálpa eða til að fá upplýsingar til að geta sagt frá ástandinu í sínum heimalöndum láta mig sjá tilganginn í að halda baráttunni áfram og mér líður ekki eins og við séum ein í stríðinu.

Sumir vina minna hafa velt fyrir sér að undanförnu hvort þeir ættu að skipta um starfsvettvang eftir stríðið. Við hugsum öll um framtíð okkar og hvernig það verður að lifa lífinu þangað til stríðinu lýkur og eftir að því er lokið. En þekkjandi fólkið mitt og borgina held ég að flestir muni fara í svipað far og áður og aðalmálið verður að lifa af laununum. Það eina sem ég get hins vegar velt fyrir mér núna er að halda áfram að gera það sem við erum að gera.

Ég ætla því að fara að drífa mig að sofa svo ég geti vaknað snemma og farið á markaðinn til að kaupa mat og vistir fyrir okkar elskulegu ömmur og afa sem við heimsækjum, plús að kaupa eitthvað gott fyrir dýrin.

Óskið okkur gæfu!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert