Fimm drepnir í Ísrael

Ísraelsmenn syrgja Avishai Yehezkel, einn af þeim sem myrtur var …
Ísraelsmenn syrgja Avishai Yehezkel, einn af þeim sem myrtur var í gær í Bnei Brak. AFP/Menahem Kahana

Palestínumaður skaut fimm manns til bana í gær í ísraelsku borginni Bnei Brak, rétt austan við Tel Aviv.

Tvö af fórnarlömbunum voru frá Úkraínu og tvö frá Ísrael, en sá fimmti sem var drepinn var lögreglumaður á vettvangi.

Samkvæmt lögreglunni á staðnum var árásarmaðurinn, Diaa Armashah, vopnaður M-16 vélbyssu og var drepinn í byssubardaga við lögreglu.

Um 15 þúsund Úkraínumenn búa í Ísrael en um 20 þúsund manns hafa nú flúið frá Úkraínu til Ísrael eftir innrás Rússa sem hófst 24. febrúar.

Úkraínumennirnir sem voru drepnir í Bnei Brak voru ekki flóttamenn.

Árásin fordæmd í Palestínu

Árásin er sú þriðja í vikunni í Ísrael þar sem mannfall hefur orðið.

Árásirnar hafa verið fordæmdar af ráðamönnum víðs vegar um heiminn, þar á meðal af Mahmud Abbas, forseta Palestínu.

„Morð á palestínskum og ísraelskum almennum borgurum mun eingöngu gera ástandið verra, þegar við erum öll að reyna að vinna að stöðugleika,“ sagði Abbas.

mbl.is