Krefjandi að starfa í Úkraínu

Karl Júlíusson ásamt tveimur sjálfboðaliðum Rauða krossins við landamæri Úkraínu …
Karl Júlíusson ásamt tveimur sjálfboðaliðum Rauða krossins við landamæri Úkraínu og Póllands.

„Þetta eru erfiðar aðstæður. Það er stríð í öllu landinu en það eru aðrar hættur hér en í austrinu,“ segir Karl Sæberg Júlísson, öryggisráðgjafi hjá Rauða krossinum, sem staddur er í borginni Lviv í Úkraínu við hjálparstörf vegna stríðsins þar í landi.

„Þegar ég kom hingað í byrjun mars var Rauði krossinn í Úkraínu þegar til staðar en hann var aðallega í austrinu þar sem mestu átakasvæðin eru. Við þurftum að setja upp starfsstöðvar í vestrinu, meðal annars til að skipuleggja birgðaflutninga. Við söfnum hjálpargögnum saman í vöruskemmur, meðal annars hér í Lviv, og sendum hjálpargögn héðan. Þau fara aðallega yfir til austurhluta landsins,“ segir hann.

Metur áhættu fyrir starf sjálfboðaliða

Karl hefur helgað sig hjálparstörfum í um tvo áratugi. Hann er 55 ára og var á árum áður lögreglumaður en hefur svo starfað bæði fyrir Rauða krossinn á Íslandi og alþjóðlega Rauða krossinn. Þar er hann öryggisráðgjafi, eða Senior Security Advisor eins og það kallast, í höfuðstöðvum samtakanna. Starf Karls felst meðal annars í því að kanna ástandið og gera áhættugreiningar á þeim svæðum sem Rauði krossinn starfar á eða hefur hug á að starfa á. „Ég þarf að meta hvort við getum sent fólk á svæðið, hversu marga og undir hvaða kringumstæðum,“ segir hann.

Í starfi sínu hefur Karl ferðast til yfir 50 landa á síðustu tveimur áratugum. Og það hafa ekki verið neinir sumarleyfisstaðir. Stríðshrjáð lönd líkt og Afganistan, Suður-Súdan og Líbía og hamfarasvæði á stöðum á borð við Filippseyjar og Haítí svo fáeinir séu nefndir.

Næg verkefni biðu hans við komuna til Úkraínu. Karl réðst í að gera áhættugreiningar svo starf samtakanna geti gengið vel fyrir sig. „Það verður að vera tryggt að okkar fólk geti verið hérna undir þeim kringumstæðum sem við metum ásættanlegar. Það hefur gengið til þessa, í það minnsta hefur enginn látist. En þetta hefur falið í sér miklar áskoranir enda eru mörg lönd sem koma að hjálparstarfinu hér. Í borginni er mikill skortur á húsnæði og farartækjum og það takmarkar hvað við getum sent af fólki hingað.“

Langir dagar og lýjandi

Þótt ekki sé sama ástand í Lviv og í austurhluta landsins verða Karl og aðrir sem dvelja í borginni sannarlega varir við að það geisar stríð í landinu. „Það eru strangar öryggisreglur varðandi allt. Fólk þarf að tilkynna sig og fara í loftvarnarbyrgi. Þetta eru mjög krefjandi aðstæður, sérstaklega fyrir fólk sem er ekki vant að vinna í stríðslöndum,“ segir Karl.

Þegar Morgunblaðið ræddi við hann í vikunni höfðu nýverið þrjú flugkeyti sprungið í borginni en ekki þó í miðborginni þar sem Karl dvelur. Hann fær tilkynningar í sérstök öpp þegar flugskeytum er skotið í átt að vesturhlutanum og þá gefast nokkrar mínútur til að koma sér í loftvarnarbyrgi.

„Í nótt þurftum við að fara í „bönker“ á milli klukkan þrjú og fjögur. Þetta geta verið langir dagar og lýjandi hér.“

Nánar er rætt við Karl í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert