Keypti íbúð nokkrum vikum fyrir stríðið

Jaroslav og nokkrir félagar hans sem koma að sjálfboðastarfi í …
Jaroslav og nokkrir félagar hans sem koma að sjálfboðastarfi í borginni Ódessu.

Brunalykt var í loftinu í gærmorgun þegar Karíne fór út í borginni Karkív. Stórskotaliðsárásir halda þar áfram á fullu, en í gær sprakk ein sprengja í næsta nágrenni við húsið hennar. Jaroslav segir andrúmsloftið hins vegar farið að þyngjast í Ódessu meðan Sergei sér jákvæðar hliðar af gangi mála í stríðinu.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Jaroslav í Ódessu

Það hafa verið stigin nokkur jákvæð skref í nágrenni Kænugarðs, en andrúmsloftið hér í Ódessu er talsvert þyngra. Við bíðum eftir því að eitthvað gerist, en enn er þó allt rólegt.

Fljótlega mun ég hitta annan vin minn sem gegnir herþjónustu. Hann er að undirbúa óskalista með hlutum sem hann og liðsfélaga hans vantar. Eins og hann segir þá bíður hann spenntur þess að komast aðeins hingað heim frá víglínunni.

Bróðir minn sendi mér annars myndir í dag af íbúðinni sem hann keypti í byrjun febrúar. Hann greiddi síðustu útborgunina í annarri viku mánaðarins og nú horfum við á íbúðina hans eyðilagða í húsi þar sem þakið hefur alveg brunnið. En hann segist ekki of sorgmæddur yfir þessu því í aðstæðum sem þessum skipti öllu máli að fjölskylda og vinir séu heil heilsu og á öruggum stað.

Ég vona að allir skilji hinn raunverulega kostnað á bak við öryggi og hamingju.

Karíne í Karkív

Stórskotaliðsárásir hafa staðið yfir síðust tvær nætur og seinni partinn í dag sprakk ein það nálægt okkur að húsið lék allt á reiðiskjálfi. Núna í kvöld hefur sprengjuregninu aðeins slotað.

Í morgunsárið var brunalykt í loftinu og grár reykur steig upp. Rússarnir eyðilögðu svo viljandi gasleiðslu í dag og nú eru fjölmörg hús í borginni án gass. Sem betur fer erum við enn með gas hér heima.

Rússneski herinn er viljandi að eyðileggja innviði til að skapa mannúðarkrísu. Þeir geta ekki sigrað herinn okkar, sem allir Úkraínumenn styðja heilshugar, og því reyna þeir að hræða og skelfa almenna borgara. Rússar erfðu þessa hugmyndafræði sem byggir á óhugnaði frá Sovétríkjunum, en á tímum hungurmorðanna (Holodomor) og skelfingartíma Stalíns voru milljónir Úkraínumanna og annarra þjóðarbrota hér í landinu kúgaðir, handteknir, fangelsaðir og sendir í þrælkunarbúðir Stalíns þar sem þeir voru svo drepnir.

Meðal þeirra var leikskáldið Les Kurbas, en árið 1922 stofnaði hann, ásamt fleirum, Berezil leikhúsið sem ég hef áður rætt um. Í dag, 31. mars, eru 100 ár síðan leikhúsið var stofnað. Markmið þess er að vera stökkpallur fyrir nýja úkraínska list og andi leikhússins kemur meðal annars fram í fjölmörgum nýstárlegum og tilraunakenndum verkum.

Nýlega fékk hópur á vegum leikhússins þrenn verðlaun á alþjóðlegri framúrstefnuleikhúshátíð í Kaíró í Egyptalandi fyrir uppsetningu sína á verkinu Caligula. Því miður þurfa allir leikarar og starfsmenn leikhússins, meðal annars fjöldi vina minna, að fagna aldarafmælinu á mismunandi stöðum í Úkraínu eða vítt og breitt um Evrópu.

Berezil leikhúsið í Karkív, en myndin var tekin og unnin …
Berezil leikhúsið í Karkív, en myndin var tekin og unnin áður en stríðið hófst.

 

Sergei í Lvív

Þrítugasti og sjötti dagur stríðsins. Veðrið hefur versnað, það er orðið kaldara og það hefur rignt meira en dagana á undan. Ég var næstum allan daginn í hefðbundnu vinnunni, en vann heima í gegnum netið.

Fréttirnar frá víglínunni voru nokkuð jákvæðar. Nokkur fjöldi bæja voru frelsaðir og innrásaraðilinn fór frá Tjerno­byl. Fjöldi hermanna, auk tækja, komust í snertingu við geislun. Þeir munu allavega taka það með sér heim.

Erlendir fréttamiðlar segja að næstu tvær vikurnar verði mjög mikilvægar varðandi gang stríðsins og ég vona að við fáum fleiri góðar fréttir á næstu dögum.

Í dag ákvað ég einnig að mála veggina heima hjá mér. Fór svo í mat til foreldra minna í kvöld. Allt í allt var þetta afkastamikill dagur.

Staðan: Eftir að hafa heyrt fréttirnar frá Tjerno­byl rifjaðist upp fyrir mér skoðunarferð sem ég fór í þangað fyrir nokkrum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert