Hundruð almennra borgara grafin í fjöldagröfum

Frá Bucha.
Frá Bucha. AFP

Yfirvöld í Úkraínu segja að rússneskar hersveitir hörfi nú hratt frá Kænugarði og borginni Tsérnihív. Í kjölfar þess hefur komið í ljós að almennir borgarar hafi verið myrtir á svæðum sem rússneski herinn hafði náð á sitt vald. 

Blaðamenn AFP sáu að minnsta kosti 20 lík á götu einni í bænum Bucha nærri Kænugarði. Á meðal hinna látnu var maður með bundnar hendur og ljósmyndari sem hafði verið saknað. Sextán hinna látnu lágu á víð og dreif á gangstétt við götuna á meðan þrír voru á veginum sjálfum. Þá fannst einn látinn í garði við götuna. 

Frá Bucha.
Frá Bucha. AFP

„Allt þetta fólk var skotið,“ sagði Anatoly Fedoruk, bæjarstjóri Bucha. Fedoruk segir að um 280 íbúar bæjarins hafi verið grafnir í fjöldagröfum í bænum. 

Eftir því sem rússneski herinn hörfar frá norðurhluta Úkraínu hefur hann einblínt á hernaðaraðgerðir í austur- og suðurhluta landsins. Úkraínsk yfirvöld segja ómögulegt að hrekja rússneska herinn frá þeim svæðum án frekari vopna en úkraínski herinn býr nú þegar yfir. 

Frá Bucha.
Frá Bucha. AFP

Talið er að um 20 þúsund manns hafi látist frá því að stríðið hófst 24. febrúar og um 10 milljónir hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Samkvæmt samtökunum Reporters Without Borders (blaðamenn án landamæra) hafa alls sex fjölmiðlamenn látist í átökunum. 

ÍMaríupol hafa að minnsta kosti 5 þúsund almennir borgarar látist og um þeir 160 þúsund sem enn dvelja í borginni standa nú frammi fyrir vatns- og matarskorti auk rafmagnsleysis. Fjöldi fólks var fluttur frá borginni eftir flóttaleiðum til Saporisjía á föstudag. 

Frá Bucha.
Frá Bucha. AFP

„Húsið mitt er ónýtt. Ég sá það á myndum. Borgin okkar er ekki til lengur,“ sagði Olena sem flúði Maríupol ásamt ungri dóttur sinni á föstudag. 

Rauði krossinn reyndi á föstudag að flytja fleiri íbúa Maríupol frá borginni en þurfti að hætta við fyrirhugaðar aðgerðir af öryggisástæðum. Til stóð að gera aðra tilraun á laugardag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert