„Þeir eru hreinlega að tapa fyrir úkraínska hernum“

Úkraínskur hermaður horfir í átt að gasstöð í úkraínsku borginni …
Úkraínskur hermaður horfir í átt að gasstöð í úkraínsku borginni Karkív varð skotmark Rússa á fimmtudaginn. Rússar hafa haldið uppi miklum árásum á borgina síðustu daga. AFP

Gríðarlegar árásir Rússa halda áfram á Karkív og hún Karíne fer yfir jákvæða og neikvæða þróun dagsins á sama tíma og hún veltir því fyrir sér hvort sprenging í olíubirgðastöð í Rússlandi sé eitthvað sem Rússar gerðu sjálfir eða hvort úkraínski herinn hafi ákveðið að ráðast yfir landamærin.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Föstudagur 1. apríl:

Karíne í Karkív

Í morgun var greint frá því að stórskotaliðsárásir hefðu verið gerðar 170 síðasta sólarhringinn. Aftur mikið um tjón og það er erfitt að meta hvort það sé meira um góðar eða slæmar fréttir þessa stundina.

Stríðið heldur áfram og það er slæmt. Óvinurinn er brjálaður og hann náði yfirráðum á borginni Isíum í Karkív-héraðinu. Það er slæmt. Hermönnum okkar tókst hins vegar að frelsa nokkrar borgir í kringum Kænugarð. Það er gott. Um 17.700 rússneskir hermenn hafa verið drepnir.

Mismunandi fréttir berast af falli rússneskra hermanna, en NATO og …
Mismunandi fréttir berast af falli rússneskra hermanna, en NATO og Bandaríkin áætla fjöldann á bilinu 10-20 þúsund. Í bardögum í útjaðri smábæjarins Mala Rogan í gær, rétt austur af Karkív, féllu meðal annars fjölmargir rússneskir hermenn, líkt og sjá má á myndinni. AFP/Sergey BOBOK

 

Olíubirgðastöð var sprengd í Belgorod í Rússlandi í dag og það lítur út fyrir að úkraínskar herþyrlur hafi sprengt hana, en mögulega sprengdu Rússar eigin borg. Þeir hafa áður gert svipaða hluti, meðal annars þegar undirbúa átti rússneskan almenning fyrir stríðið í Tjetj­en­íu og rússneska leyniþjónustan sprengdi upp nokkur hús og með því fjölda rússneskra íbúa húsanna. Með því reyndu þeir að fá almenning á band innrásarinnar og það virðist vera sem sprengingarnar í Belgorod eigi að undirbúa Rússa undir nýja sókn í Úkraínu.

Rússar segja að þeir séu að draga herlið sitt frá Tjernikiv og Kænugarði en það er ekki satt. Þeir eru hreinlega að tapa fyrir úkraínska hernum og þeir eru að hörfa. Þeir munu samt líklega safna hermönnum sínum saman á ný og gera aðra árás. Það er ekki hægt að treysta þeim.

Í dag er dagur hlátursins, en við höfum aðeins getað hlegið í gegnum tárin. Margir hafa látist. Hins vegar gerast skrítnir hlutir í stríði. Innrásarherinn ætlaði sér að ræna bóndabæ í Kerson-héraðinu, en á bænum var býflugnarækt. Býflugurnar höfðu svelt yfir veturinn og réðust á Rússana og létust tveir þeirra af stungum býflugnanna og 25 aðrir særðust. Jafnvel úkraínskar býflugur eru í hernaði gegn innrásarliðinu.

Sergei í Lvív

Þrítugasti og sjöundi dagur stríðsins. Hermenn okkar gerðu í dag árás á rússnesku borgina Belgorod og sprengdu olíubirgðastöð þar. Rússar þurfa líka að vita hvernig það er þegar stríð færist yfir á þeirra heimagrund. Ég gat yljað mér við þessa hugsun í næstum allan dag.

Í dag undirbjó ég nokkrar máltíðir fram í tímann á meðan ég hlustaði á uppáhalds tónlistina mína, hljómsveitina Elffor. Þrátt fyrir leiðinlegt veður var ég nokkuð hress í dag, en verð samt sorgmæddur þegar ég hugsa til eiginkonu minnar og sonar. Mig langar svo mikið að sjá þau og faðma, en meðan hættan er til staðar hér er það ómögulegt.

Ég á erfitt með að hugsa til þess hve margar aðrar fjölskyldur hafa verið aðskildar eins og við. Ég vildi að þetta myndi allt saman enda. Ég reyni jafnframt að hugsa ekki til þess hversu mikið þetta stríð hefur breytt landinu mínu.

Staðan: Elffor – Unholy Gleam

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert