Trump án eftirsjár

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP/Scott Olson

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagðist í viðtali ekki sjá eftir því að hafa boðað stuðningsmenn sína til þinghússins í Washington 6. janúar í fyrra og sagt að það „yrði fjör“ (e. would „be wild!“).

Þúsundir stuðningsmanna Trumps brutust inn í þinghúsið í Washington til þess að mótmæla valdaskiptum eftir forsetakosningarnar 2020 þar sem Joe Biden bar sigur úr býtum.

Trump sagði við dagblaðið Washington Post að hann hefði slegist í för með stuðningsmönnum sínum ef öryggisverðir hans hefðu ekki stöðvað hann.

Sagði kosningarnar svindl

Forsetinn fyrrverandi sýndi enga iðrun yfir því að hafa æst upp stuðningsmenn sína með ósannindum þar sem hanni sagði að sigri kosninganna hafi verið stolið frá sér með víðtæku kosningasvindli.

Þrátt fyrir það fordæmdi hann ofbeldið sem fylgdi í kjölfarið.

Í gær var samþykkt í fulltrúadeild þingsins að fyrrverandi aðstoðarmenn Trumps, Peter Navarro og Dan Scavino, skyldu sæta ákæru fyrir að neita því að bera vitni um árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert