Biden í stríð gegn vofu vopnum

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP/ Mandel Ngan

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag nýjar aðgerðir til að berjast gegn notkun sérstakra skotvopna sem hafa hlotið nafngiftina vofuvopn (e. ghost guns).

Byssurnar hafa hlotið þessa nafngift vegna þess eiginleika að vera óskráðar og oft á tíðum samansettar á heimilum á nokkrum mínútum og því órekjanlegar.  

Þessi svokölluðu vofuvopn hafa komið fyrir tvöfalt oftar í skýrslum lögreglu vestanhafs árið 2020 en árið 2021 og er því um að ræða stórfellda aukningu. 

Strangari reglur 

Nýtt regluverk, sem Biden hyggst koma á, mun setja sömu kröfur, og eru fyrir sölu á tilbúnum skotvopnum, fyrir sölu á skotvopnahlutum sem hægt er að setja saman að sögn fulltrúa stjórnvalda í Bandaríkjunum. 

Þeir söluaðilar sem hafa verið að selja slík vofuvopn verða nú að framkvæma ferilsathugun, það er kanna bakgrunn þeirra, sem hyggjast versla hjá þeim. Jafnframt munu þeir þurfa að halda skrá yfir þá sem hafa verslað skotvopnahluti hjá þeim svo lengi sem þeir eru í rekstri.  

Vonast til að það muni ganga betur að rekja 

Að sögn dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Merrick Garland, mun þetta nýja regluverk gera glæpamönnum erfiðara fyrir að nálgast órekjanlegar byssur og aðstoða lögregluyfirvöld að leysa glæpamál.  

Á síðustu fimm árum hefur vopnaeftirlit Bandaríkjanna aðeins náð að rekja 0,98 prósent af þeim byssum sem hafa verið taldar til vofuvopna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert