Vöruð við sprengjum í fallhlífum

Síðustu tvo daga hafa Jaroslav og félagar aðstoðað hermenn í …
Síðustu tvo daga hafa Jaroslav og félagar aðstoðað hermenn í nágrenninu við að redda m.a. varahlutum og fleiru.

Sergei kvaddi náinn vin sinn um helgina sem féll í síðustu viku á vígvellinum. Fleiri og fleiri þekkja nú til hermanna sem hafa fallið í átökunum og þannig færist stríðið nær almenningi. Í Ódessu var útgöngubann í einn og hálfan sólarhring og segir Jaroslav að það hafi verið gott að ná að endurhlaða batteríið fyrir næstu törn í sjálfboðastarfinu. Árásir halda hins vegar áfram á Karkív, en Rússar virðast stefna á aukna sókn þar í austurhluta landsins á komandi dögum. Karíne segir meðal annars frá því þegar vinkona hennar var nálægt sprengingu þar sem hún beið eftir aðstoð og nýjum varnarorðum borgarstjórans.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Sunnudagur 10. apríl

Karíne í Karkív

Í dag átti ég möguleika, í fyrsta skipti frá því að stríðið braust út, að keyra í gegnum miðborg Karkív. Eiginmaður minn átti smá frítíma og við fórum á aðalmarkaðinn sem einnig gengur undir heitinu boðunarmarkaðurinn, en hann er rétt hjá Boðunarkirkju Maríu meyjar. Starfsemi á markaðinum er komin af stað að hluta og ég fór meðal annars og keypti rúgmjöl í verslun sem selur lífrænar vörur. Maðurinn minn keypti nokkra hluti til að geta gert við og staðið í endurbótum, en hann er í sjálfboðastarfi við að laga hús sem hafa verið skemmd í árásum Rússa.

Eftir ferðina á markaðinn komum við við í dýrabúð, en fáar slíkar eru nú opnar í Karkív. Þar keyptum við lyf og nammi handa hundinum okkar.

Víða á leiðinni sáum við hús sem eru skemmd, en samt hefur tekist að hreinsa borgina að einhverju leyti og mættum við nokkrum götusópurum sem keyrðu um göturnar. Auðvitað er ekki hægt að horfa fram hjá eyðileggingunni sem Rússar hafa valdið, en almennt lítur borgin nokkuð vel út og það voru einnig margir á ferli úti við. Í stórmarkaðinum keyptum við síld og ég ætla aftur að gera „síld undir loðdýrakápu“

Rétturinn „síld undir loðdýrakápu“ en Karíne hefur áður sagt frá. …
Rétturinn „síld undir loðdýrakápu“ en Karíne hefur áður sagt frá. Loðdýra­káp­an er lag af soðnu græn­meti með maj­ónessósu. Ljósmynd/Karíne

Við töluðum við bekkjarfélaga minn, Igor, í síma meðan við vorum á ferðinni, en hann er einnig í Karkív. Igor vildi vita hvernig við hefðum það eftir stórskotaliðsárásirnar, en í morgun varð hverfið þar sem hann og móðir hans búa fyrir árás. Þau sluppu þó ósködduð frá henni. Við erum enn öll á lífi.

Í gær ræddi ég svo við aðra vinkonu mína, Írínu, en fyrir viku var gerð árás rétt hjá þar sem hún og aðrir stóðu í biðröð eftir mannúðaraðstoð í einu úthverfi borgarinnar. Þegar árásin hófst féll Írína í jörðina og þurfti að skríða í skjól. Hún komst að mestu óslösuð frá þessu, en var skiljanlega mjög hrædd eftir þetta. Hún ætlar samt áfram að vera í borginni.

Borgarstjórinn í Karkív sagði í gær að Rússar væru að varpa sprengjum í fallhlífum og að það væri einhver ný aðferð. Varaði hann íbúa við að nálgast fallhlífar sem lægju á jörðinni því það gætu verið ósprungnar sprengjur. Frekar ætti að láta herinn vita af þessu.

Meðal fólks sem ég þekki eru nokkrir sem vinna nú að því að skrá niður og halda utan um bæði þau skemmdarverk og stríðsglæpi sem Rússar hafa staðið fyrir. Þetta er erfið og tímafrek vinna, en nauðsynleg. Síðasta sólarhringinn hafa t.d. Rússar gert 60 stórskotaliðsárásir á borgina og slíkar árásir hafa staðið yfir flesta daga undanfarið.

Á kvöldin segjum við góða nótt við vini og vandamenn með sérstökum kveðjum um að vonandi verði nóttin án sprenginga og stórskotaliðsárása. Þessar kveðjur eru fólki mjög mikilvægar á kvöldin.

Sergei í Lvív

Fertugasti og sjötti dagur stríðsins. Á laugardaginn fór ég í jarðaför vinar míns sem lést á vígvellinum. Jarðafarir eru alltaf erfiðar þegar það er einhver nákominn manni. Mikill fjöldi mætti í athöfnina og bæði karlar og konur grétu. Júrí var vinamargur og hans verður minnst af mörgum. Það var mér heiður að hafa fengið að vera vinur hans. Minning hans mun lifa. Eftir jarðaförina fór ég heim og svaf upp í rúmi það sem eftir lifði dags. Aðeins svefn hjálpar mér á svona stundum.

Mér líður aðeins betur í dag, en ég fór og heimsótti foreldra mína og hjá þeim málaði ég meðal annars aðeins. Þess fyrir utan nýtti ég daginn í að hvílast og horfa á kvikmyndir. Fréttir frá víglínunni eru að mestu óbreyttar. Það berast samt alltaf frekari fréttir af voðaverkum Rússa í nágrenni Kænugarðs og aukinni sókn þeirra í Donetsk-héraðinu.

Framundan eru erfiðar áskoranir. Það lítur út fyrir að þetta stríð muni seint enda. Ég reyni að hugsa ekki um það, en ég sé fólk í kringum mig sem er orðið bugað og sýnir litlar sem engar tilfinningar. Ég vona að heimurinn muni ekki gleyma okkur.

Staðan: Það er eins og vorið ætli aldrei að koma.

Jaroslav í Ódessu

Er nú alveg endurnærður eftir eins og hálfs dags útgöngubann, en það var sett á til að tryggja öryggi íbúa í borginni. Ég veit að þetta getur verið erfitt fyrir marga, en fyrir mig var þetta nauðsynlegt til að endurhlaða aðeins batteríið og hvílast eftir langa daga þar á undan. Reyndar varði ég deginum líka í að leysa nokkur vandamál tengt sjálfboðastarfinu og heyra í samstarfsfólki mínu varðandi skipulagið og í raun var dagurinn fljótur að líða.

Útkeyrsla á matvælum heldur áfram hjá Jaroslav og félögum hans …
Útkeyrsla á matvælum heldur áfram hjá Jaroslav og félögum hans í Ódessu.

 

Ég notaði einnig tækifærið og hringdi í ættingja, foreldra mína og vini. Það var t.d. æðislegt að heyra af frænda mínum og uppvexti hans nú á fyrsta árinu hans. Þá ræddi ég við mömmu um garðinn okkar hér heima og ketti sem eru nú hjá henni og pabba. Þá náði jafnframt gamall skólafélagi minn að kíkja í heimsókn í hálftíma, en við rifjuðum upp sögur úr skóla og ræddum málefni fólks með sérþarfir sem við erum m.a. að aðstoða í dag.

Síðustu tvo daga tókst okkur einnig að hjálpa hermönnum hér í nágrenninu, en við redduðum ýmsum varahlutum til að koma herflutningatæki í gang á ný. Þetta var verkefni sem allir voru boðnir og búnir að aðstoða með. Frábært að ná að aðstoða með þetta.

Ég þakka guði fyrir friðsaman dag fyrir mig og fjölskyldu mína hér í kringum Ódessu, en á sama tíma heyrði maður um harða sókn Rússa á Míkólaív, borg sem er hérna rétt austan við Ódessu. Ég veit að það þýðir bara eitt – fjöldi nýrra fórnarlamba vegna þessarar heimskulega stríðs. En vonandi hef ég rangt fyrir mér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert