Viðstaddur þegar lík voru grafin upp

Rannsóknarteymi við störf í Bútsa í morgun.
Rannsóknarteymi við störf í Bútsa í morgun. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Ljósmyndarinn Óskar Hallgrímsson fór í morgun ásamt fleira fjölmiðlafólki og fékk að fylgjast með um stund þegar lík voru grafin upp úr fjöldagröf í Bútsja í Úkraínu. 

mbl.is náði tali af Óskari þegar hann var kominn til baka á heimili sitt í Kænugarði. 

Fjölmennt teymi var við rannsóknir á vettvangi. Bæði frá yfirvöldum í Úkraínu en einnig viðar að. 

„Ég hafði komið þarna áður. Síðast þegar ég fór til Bútsja þá kom ég við á þessum stað. Þá var önnur fjöldagröfin ennþá opin og ekkert hafði verið sett yfir. Þá sá maður líkpoka í haug en einnig hvar hin fjöldagröfin var. 

Núna var sem sagt verið að grafa hana upp og rannsóknarteymi fylgdist með. Þar var til dæmis fulltrúi frá Mannréttindadómstólnum en einnig lögregla, réttarmeinafræðingar ásamt fjölda blaðamanna. Það var í raun skipulögð ferð þar sem blaðamenn gátu fylgst með um stund. 

Fjöldagröfin sem Óskar skoðaði í morgun.
Fjöldagröfin sem Óskar skoðaði í morgun. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Fimm lík voru grafin upp á meðan við vorum þarna en vitað er um fimmtíu og sjö einstaklinga í þessari gröf en það gætu verið fleiri. Miðað við þær upplýsingar sem ég fékk frá fólkinu í Bútsja þá eru eingöngu óbreyttir borgarar í þessum fjöldagröfum. Fólk frá Hostomel og Bútsja

Íbúarnir fjarlægðu líkin af götunum

Óskar bendir á að grafirnar hafi verið teknar af íbúum í Bútsja en ekki rússneskum hermönnum. Íbúar borgarinnar hafi reynt að fjarlægja lík og koma þeim í fjöldagrafir á meðan þau töldu það enn vera óhætt. 

„Íbúar í Bútsja gerðu þetta til að taka lík af götunum á meðan Rússarnir voru enn í borginni. Rússnesku hermönnunum var nákvæmlega sama og létu líkin liggja á götunum. Þeir grófu því ekki fólk í fjöldagryfjum til að fela líkin eða eitthvað slíkt.

Frá vettvangi í Bútsja í morgun.
Frá vettvangi í Bútsja í morgun. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Fjöldagrafirnar eru nærri kirkju í borginni. Til að byrja með fékk fólkið að gera þetta í friði en síðar fóru Rússarnir að skjóta á það. Fyrir vikið varð fólkið hrætt við að fjarlægja líkin og þau söfnuðust upp á götunum. 

Upplifuninni fylgir óhjákvæmileg vanlíðan

Upplifun Óskars af því að sjá fjöldagröf var enn erfiðari í fyrra skiptið að hans sögn. 

„Það voru miklu meiri þyngsli yfir fyrri heimsókninni hjá mér og þá var ég í fámennum hópi. Þá var engin her né lögregla og maður gekk bara að fjöldagröf. Í morgun var þetta frábrugðið vegna þess að fólk var að vinna við að safna upplýsingum og reyna að bera kennsl á líkin. Þar af leiðandi fann maður að það væri verið að gera eitthvað. Hryllingurinn var meiri í fyrra skiptið. Auk þess vissi ég af þessari fjöldagröf í fyrra skiptið. En svo er sumt sem erfitt er að búa sig undir eins og til dæmis lyktin. 

Auðvitað líður manni ekki vel eftir að hafa séð svona lagað. Þetta er hræðilegt. En ef til vill er maður að einhverju leyti að verða samdauna ástandinu,“ sagði Óskar í samtali við mbl.is í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert