Flaggskip Rússa í Svartahafi sokkið

Flaggskip Rússlands í Svartahafi, Moskva.
Flaggskip Rússlands í Svartahafi, Moskva. AFP

Flaggskipið Moskva hefur sokkið í Svartahafi samkvæmt rússneskum yfirvöldum. Flugskeytum var stýrt frá herskipinu sem sökk við hernaðaraðgerðir úti fyrir Úkraínu að sögn varnarmálaráðuneytis Rússlands. 

Fram kemur í yfirlýsingu rússneskra yfirvalda að kviknað hafi í skipinu í kjölfar þess að skotfæri sprungu um borð þegar það var dregið í höfn eftir að hafa orðið fyrir skaða við hernaðaraðgerðir. Skipið hafi síðan sokkið alelda. 

Hundruð áhafnarliða voru flutt um borð í önnur nálæg skip. 

AFP

Í yfirlýsingu úkraínskra yfirvalda segir að Moskva hafi orðið fyrir úkraínsku flugskeyti sem skotið var frá Ódessu. Rússar minntust ekki á flugskeytaárás í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins. 

Flaggskipið hafði farið fyrir hernaði Rússa á hafi úti frá því að árásir á Úkraínu hófust fyrir um sjö vikum. 

Áætlað var að brottflutningur íbúa í suður- og austurhluta Úkraínu héldi áfram í dag eftir fyrirfram ákveðnum flóttaleiðum. Alls hafa rúmlega en 4,7 milljónir þurft að yfirgefa heimili sín frá því að stríðið hófst fyrir 50 dögum. 

Bandaríkin kynntu í vikunni 800 milljón dollara aðstoðarpakka, sem hannaður er til þess að styðja við Úkraínuher í austurhluta landsins. Í kjölfar þess að hersveitir Rússa hörfuðu frá Kænugarði og öðrum svæðum í norðurhluta landsins, hefur aukinn þungi verið lagður á hernaðaraðgerðir Rússa í austurhluta landsins, ekki síst í hafnarborginni Maríupol þar sem talið er að tugþúsundir hafi týnt lífi. 

Skipafloti Rússa í Svartahafi hefur síðustu vikur þjarmað að Maríupol og lokað fyrir innflutning á nauðsynjarvörum sjóleiðis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert