Lögreglumaður skaut svartan mann til bana

Frá mótmælunum.
Frá mótmælunum. AFP

Tugir mótmælenda söfnuðust saman í gærkvöldi í Grand Rapids, Michigan-ríki, eftir að lögreglan birti myndbönd þar sem sjá má þegar ungur svartur maður, Patrick Lyoya, er skotinn til bana af hvítum lögreglumanni.

Í einu myndbandanna, sem tekin voru 4. apríl, sést þegar lögreglumaðurinn liggur á baki Lyoya eftir að hafa stöðvað hann í umferðinni. Næsta sem sést er að Lyoya er skotinn í höfuðið. Áður en lögreglumaðurinn skaut Lyoya má sjá þá takast á en báðir reyndu þeir að ná rafbyssu lögreglumannsins.

Í frétt BBC kemur fram að Lyoya hafi verið stöðvaður og síðan beðinn um að sýna ökuskírteini. Þá hafi hann tekið á rás frá lögreglumanninum. Eftir það kom til átaka og lögreglumaðurinn dró fram rafbyssuna.

Myndböndin sem voru birt voru tekin úr búkmyndavél lögreglumannsins, myndavél af mælaborði lögreglubíls og úr öryggismyndavél húss að því er segir í frétt BBC. Auk þess tók farþegi í bíl Lyoya upp myndband á sinn síma en það er í þeirri upptöku sem það sést þegar Lyoya er skotinn í höfuðið.

Lögreglumaðurinn hefur ekki verið nafngreindur.
Lögreglumaðurinn hefur ekki verið nafngreindur. AFP

Lögreglumaðurinn í launuðu leyfi

Sjónvarpsupptökur sýndu að um 50 til 100 mótmælendur komu saman í miðbæ Grand Rapids, um 200.000 manna borg. Þeir báru „Black Lives Matter“ spjöld og sungu „ekkert réttlæti, enginn friður“.

„Ég lít á þetta sem harmleik,“ sagði Eric Winstrom, lögreglustjóri Grand Rapids, um skotárásina á blaðamannafundi í gær, þar sem myndböndin voru birt. 

Lögreglumaðurinn hefur ekki verið nafngreindur og er hann í launuðu leyfi á meðan lögreglan í landinu rannsakar hvort ákæra eigi að fara fram, sagði Winstrom.

Morð lögreglu á svörtum mönnum hafa vakið athygli

Morð lögreglu á svörtum mönnum í Bandaríkjunum hafa vakið mikla athygli undanfarin ár, sérstaklega eftir að hvítur lögreglumaður í Minneapolis kraup á hálsi George Floyd þar til hann lést árið 2020. 

Dauði Floyds, sem var tekinn upp á myndband sem fór á netið, ýtti undir Black Lives Matter hreyfinguna og í marga mánuði voru mótmæli gegn kynþáttaóréttlæti og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum og um allan heim. 

Mótmælandi heldur á mynd af George Floyd í mótmælum í …
Mótmælandi heldur á mynd af George Floyd í mótmælum í fyrra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert