Hóta afleiðingum gangi Finnar og Svíar í NATO

Maria Zakharova.
Maria Zakharova. AFP

Rússneska utanríkisráðuneytið hefur varað við ótilgreindum „afleiðingum“ ef Finnland og Svíþjóð ganga í Atlandshafsbandalagið (NATO).

„Ákvörðunin er á valdi yfirvalda í Svíþjóð og Finnlandi. En þau ættu að skilja afleiðingar slíks skrefs fyrir tvíhliða samskipti okkar og fyrir uppbyggingu evrópskra öryggismála í heild,“ sagði Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, í yfirlýsingu.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði á blaðamannafundi í fyrradag að ákvörðun um hvort ríkið muni ganga í NATO verði tekin innan „nokkurra vikna“.

Komi kjarnorkuvopnum fyrir á svæðinu

Rússar segjast tilneyddir til að styrkja varnir sínar á Eystrasaltssvæðinu ef Finnland og Svíðþjóð ganga í NATO, meðal annars með því að koma kjarnorkuvopnum fyrir á svæðinu.

Fyrrverandi forseti Rússlands, Dmítríj Medvedev, varaði við því í gær að tómt mál yrði að tala um kjarnorkuvopnalaust Eystrasalt ef Finnar eða Svíar ákvæðu að ganga í NATO. Var það lesið úr orðum hans að Rússar væru að reyna að hóta því að koma fyrir kjarnorkuvopnum í Kalíníngrad (Königsberg), sem er útlenda frá Rússlandi milli Litháens og Póllands.

Hins vegar fullyrti varnarmálaráðherra Litháen Arvydas Anušauskas í gær að Rússar ættu nú þegar kjarnorkuvopn í vopnabúrum sínum í Kalíníngrad og því væru hótanirnar „frekar skringilegar“.

Sömuleiðis reyndi Dmítríj Peskov, talsmaður Kremlar, að gera minna úr málinu og sagði ekkert nýtt að Rússar þyrftu að efla varnarmátt sinn á vesturvængnum.

Dmitry Medvedev.
Dmitry Medvedev. AFP

Gæti haft áhrif á Íslandi

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði í Facebook-færslu í gær að Ísland þyrfti þegar í stað að hefja undirbúning vegna hugsanlegra refsiaðgerða Rússa gegn Finnlandi og Svíþjóð sem gætu beint að Ísland og öðrum aðildarríkjum NATO.

„Auk þess að það eitt og sér að Ísland er eitt Norður­land­anna get­ur leitt til refsiaðgerða,“ skrifaði Baldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert