Loftárás á verksmiðju í Kænugarði

Verksmiðjan sem var eyðilögð í gær.
Verksmiðjan sem var eyðilögð í gær. AFP/Fadel Senna

Verksmiðja í Kænugarði sem framleiðir hernaðargögn varð fyrir loftárás rússneskra hersveita snemma í morgun, en Rússar hafa nýlega varað við hertum árásum á höfuðborgina.

Mikill viðbúnaður lögreglu og hermanna var á svæðinu eftir að borgarstjóri Kænugarðs Vítalí Klit­sjkó tilkynnti um sprengingar í Darnirskí-hverfi borgarinnar í morgun. Yfirvöld eru enn að rannsaka hvort einhver hafi særst eða látið lífið í árásinni.

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur sömuleiðis staðfest árásina á verksmiðjuna en samkvæmt þeirra upplýsingum voru „mjög nákvæm og langdræg“ flugskeyti notuð til að eyðileggja hana.

Vara við árásum

Rússar hafa sakað Úkraínumenn um að miða árásum að rússneskum bæjum við landamærin og hafa þeir varað við umfangsmeiri árásum á höfuðborgina.

„Fjöldi og um­fang eld­flauga­árása á skot­mörk í Kænug­arði mun aukast til að bregðast við hryðju­verka­árás­um eða skemmd­ar­verk­um sem stjórn Kænug­arðs hef­ur framið á rúss­nesku yf­ir­ráðasvæði,“ sagði í yf­ir­lýs­ingu ráðuneyt­is­ins í gær.

Einungis sólarhringur er liðinn frá því að rússneskar hersveitir gerðu árás á Vizae verksmiðju fyrir utan Kænugarð, í grennd við alþjóðaflugvöllinn, sem framleiddi flugskeyti sem Rússar telja að hafa verið notuð til að sökkva flaggskipinu Moskvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert