„Rússar munu ekki fyrirgefa okkur þetta“

Eld­flauga­beiti­skip­ið Moskva sökk á Svartahafi á fimmtudaginn.
Eld­flauga­beiti­skip­ið Moskva sökk á Svartahafi á fimmtudaginn. AFP

Íbúar í Úkraínu fagna því að her landsins hafi grandað flaggskipi rússneska flotans á fimmtudaginn, en á sama tíma átta þeir sig á því að þetta gæti valdið því að Rússar herði enn sóknina. Þannig var meðal annars gerð árás á verksmiðju í Kænugarði í nótt og aðra verksmiðju daginn áður, en báðar verksmiðjurnar framleiða hergögn.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Sergei í Lvív

Fimmtugasti og fyrsti dagur stríðsins. Í dag var loksins staðfest að rússneska flaggskipið Moskva er sokkið og líklega flestir af um 500 manna áhöfn þess. Rússar munu ekki fyrirgefa okkur þetta, en þetta þýðir líka að skipið verður ekki notað til að skjóta fleiri eldflaugum á okkur. Við höfum þegar fengið fregnir af því að þeir séu að undirbúa notkun á sprengjuflugvélum. Það þýðir að borgir eins og Lvív, þar sem ég bý, gætu orðið fyrir miklu sprengjuregni. Næstu vikur gætu því orðið mjög erfiðar.

Í dag rigndi hér í Lvív og ég vann ekkert rosalega mikið. Í gær vann ég hins vegar slatta við þýðingar á allskonar texta. Horfði svo á heimildarmynd og vann að tónlistarverkefni. Um kvöldið heimsótti ég svo foreldra mína og við borðuðum mat og horfðum saman á kvikmynd. Dagurinn leið í raun frekar hratt.

Heyrði í gær frá eiginkonu minni, en hún og sonur okkar hafa það gott í Póllandi. Sakna þess að geta ekki hjálpað henni með son okkar og langar svo mikið að fá þau aftur til mín.

Staðan: Nazareth – Love hurts

Teymið sem er með Jaroslav í sjálfboðastarfinu. Fremst er svo …
Teymið sem er með Jaroslav í sjálfboðastarfinu. Fremst er svo auðvitað mikilvægasti meðlimur hópsins.

 

Jaroslav í Ódessu

Í dag fór ég í fyrsta skiptið í 6-7 ár í smá ferðalag á reiðhjólinu mínu. Alveg talsverður hjólatúr, en ég fór að sendiferðabílnum mínum sem bilaði seint í gærkvöldi í útjaðri borgarinnar. Hálfur dagurinn fór svo í viðgerðir og í kjölfarið gátum við svo klárað síðustu útkeyrslurnar sem við höfðum ætlað að græja í gær.

Í gær fengum við loksins sendinguna okkar frá Litháen, en í henni eru allskonar hjálpargögn fyrir til dæmis fatlaða skjólstæðinga okkar, meðal annars föt, hreinlætisvörur og fleira. Því miður höfðu kassarnir verið opnaðir á allavega 2-3 stöðum á leiðinni. Við vitum ekki enn hvort eitthvað af vörunum hefur horfið í þeim skoðunum, en á morgun munum við opna alla sendinguna og taka það upp og bera svo saman það sem var sent og það sem barst okkur.

Jaroslav dró fram reiðhjólið sitt í gærmorgun til að hjóla …
Jaroslav dró fram reiðhjólið sitt í gærmorgun til að hjóla út í úthverfi borgarinnar þar sem sendibíllinn hans bilaði daginn áður. Ljósmynd/Jaroslav

 

Karíne í Karkív

Það voru áfram stórskotaliðsárásir á Karkív í nótt, en í morgun var allt orðið rólegt. Loftvarnarflauturnar glumdu þó nokkrum sinnum í dag. Íbúar hér eru að reyna að vinna að því að koma hlutum hér aftur í röð og reglu og maður sér fólk planta blómum og snyrta í blómabeðum. Vorið er að koma og jurtir og blóm dafna og springa út. Maður þarf samt að gæta að sér, fylgja varúðarreglum og hlaupa til þegar loftvarnarflauturnar glymja.

Ég tók þátt í jógatíma á netinu í dag hjá gamalli vinkonu minni, henni Svetlönu. Það var ljúf stund og ég var ánægð að ná að ræða við hana aðeins eftir tímann. Hún flúði til Kanada, en dóttir hennar býr þar ásamt eiginmanni sínum og syni. Sonur hennar flutti einnig til Kanada fyrir nokkrum mánuðum til að vinna og er þar líka.

Eiginmaður Svetlönu, Dmitrí, varð hins vegar eftir í Úkraínu ásamt hundinum þeirra. Hann býr núna í vesturhluta landsins, en þau bjuggu saman hér í Saltovka hverfinu í Karkív áður en stríðið hófst. Foreldrar Dmitrí halda enn til í hverfinu, en þau neituðu að flýja eins og svo margir sem vilja ekki yfirgefa heimili sitt.

Í gær voru allir að tala um góðu fréttirnar af því að hernum okkar hafi tekist að stórskemma herskipið Moskvu á Svartahafi. Talið er að Úkraínumenn hafi skotið á skipið með tveimur Neptune eldflaugum, en um borð í skipinu voru eldflaugar sem Rússar hafa notað til að skjóta á úkraínskar borgir úr mikilli fjarlægð. Skipið var meðal annars notað til að skjóta á Snákaeyju í byrjun stríðsins þegar úkraínskir varðliðar sögðu rússnesku hermönnunum að fara til fjandans. Það varð að táknmynd fyrir mótstöðu Úkraínumanna og því er eyðilegging þessa skips nú táknræn og veitir okkur innblástur í stríðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert