Sex ljósmæður kærðar vegna andlátsins

Frá spítala. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki …
Frá spítala. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Sex ljósmæður í Senegal hafa verið kærðar vegna andláts ófrískrar konu á opinberum spítala snemma í apríl.

Móðirin, Astou Sokhna, var komin níu mánuði á leið þegar hún mætti á spítalann. Hún bað ítrekað um að fá að fara í keisaraskurð. Starfsfólk spítalans neitaði henni um slíka aðgerð og sagði að það væri vegna þess að hún hefði ekki verið skipulögð fyrirfram. Þá hótaði starfsfólkið Sokhna því að hún yrði rekin út af spítalanum ef hún héldi áfram að krefjast aðgerðarinnar, að því er senegalskir fjölmiðlar greina frá. 

Heilbrigðisstarfsfólk leggur niður störf

Sokhna lést og barn hennar einnig eftir að þau höfðu beðið í 20 klukkustundir á spítalanum. 

Málið hefur vakið mikla reiði í Senegal og hefur forseti landsins lofað rannsókn.

Ljósmæðurnar voru kærðar fyrir að hafa ekki aðstoðað manneskju í hættu. Fjórar þeirra eru í haldi en tveimur hefur verið sleppt. 

ASAS, verkalýðsfélag heilbrigðisstarfsfólks, hefur komið á þriggja daga verkfalli sem hefst í dag til þess að mótmæla handtökunum sem og slökum launakjörum.

ASAS ásakaði ríkisstjórnina um að hafa brugðist með því að bíða ekki eftir niðurstöðum rannsóknar á atvikinu og henda heilbrigðisstarfsfólki inn í „fjölmiðlamúginn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert