Ekki einu sinni hægt að fara í kirkjugarðinn

Hundur hjónanna kælir sig í vatninu síðasta sumar. Samkvæmt fréttum …
Hundur hjónanna kælir sig í vatninu síðasta sumar. Samkvæmt fréttum sem Karíne féllu sprengjur á sumarbústaðahverfið og í kjölfarið fóru Rússar og rændu sumarhúsin. Ljósmynd/Karíne

Eftir sprengingu í næsta nágrenni við Sergei fyrir tveimur dögum glímir hann áfram við andlegar afleiðingar þess með tilheyrandi kvíða. Karíne og maðurinn hennar fengu svo að vita í gær að Rússar hefðu sprengt upp sumarbústaðahverfið þar sem þau áttu lítið sumarhús og að innrásarliðið hefði í kjölfarið farið um og rænt bústaðina. Aðstæður í Ódessu hafa einnig breyst til hins verra og þar heyrast nú reglulega sprengingar og þær gera aðstæður þar meira taugatrekkjandi fyrir þá sem eftir eru í borginni.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Miðvikudagur 20. apríl

Sergei í Lvív

Fimmtugasti og sjötti dagur stríðsins. Í dag á pabbi minn afmæli, en hann er orðinn 58 ára gamall. Ég þurfti að fara stutt á skrifstofuna í dag og það var ótrúlegt hvað það voru margir bílar á götunum í bænum, næstum því þjöppuð umferð á öllum götum.

Veðrið er að verða örlítið betra með hækkandi hita, en samt mætti það alveg vera talsvert betra. Spurning hvort veturinn ætli aldrei almennilega að enda.

Einn af félögum mínum ætlar að reyna að flýja frá borginni Kerson í suðurhluta landsins, en borgin er hersetin af Rússum. Ég vona að honum muni takast ætlunarverk sitt, því þetta getur verið mjög hættulegt á þessum tímum.

Andleg líðan mín er annars að verða betri hægt og rólega eftir sprengingarnar hér í Lvív fyrir tveimur dögum, en á mánudaginn vaknaði ég við sprengingu hér í næsta nágrenni við húsið mitt. Sjö manns létu lífið og ellefu særðust. Ég var með mikinn kvíða eftir árásirnar, svaf illa og fékk martraðir. Þetta er það sem maður upplifir á stríðstímum. Það er annars áhugavert hvernig heilinn virkar og hvernig hann reynir að loka á neikvæðar upplifanir eins fljótt og hann getur þannig að maður geti reynt að lifa eðlilegu lífi.

Ég fylgist með fréttum af bardögum í austurhluta landsins og í fljótu bragði sér maður lítið um góðar fréttir. Þetta verða hræðilegir bardagar og fjölmargir munu deyja, líklega fleiri en hafa látist hingað til í stríðinu. Ég held enn að við munum sigra, en verðmiðinn verður allt allt of hár.

Karíne í Karkív

Þetta var friðsamur morgun, en þögnin er þrúgandi. Ég nýtti daginn í að fara út í búð og kaupa mjólk, en það rigndi allan daginn og sólin kom ekki fram fyrr en klukkan fimm síðdegis.

Í gær hringdi vinkona mín hún Tatíana í mig. Við eigum samliggjandi sumarhúsaskika hér fyrir utan borgina og hún sagði mér að hverfið okkar hefði orðið fyrir stórskotaliðsárás og að Rússar hefðu hertekið svæðið og rænt sumarhúsin. Maðurinn minn og faðir hans reistu húsið okkar og við höfðum varið miklum tíma í að gera lóðina í kringum húsið mjög fallega. Nærri húsinu okkar er svo stöðuvatn þar sem við syntum á sumrin. Þessar fréttir komu mér nokkuð úr jafnvægi í dag.

Tatíana sagði mér að fyrir páskana hefði hún alltaf farið í kirkjugarðinn við garð æskunnar hér í Karkív. Þar hefði hún og fjölmargir aðrir komið og hreinsað til í kringum leiði látinna ættingja, en í ár er það ómögulegt. Rússarnir skjóti jafnvel á kirkjugarða. Þá hafa kvöldmessur einnig verið felldar niður um páskana því fólk er hrætt við að Rússar muni einnig skjóta á kirkjur.

Hér í Úkraínu höldum við upp á páskadag 24. apríl og ég baka venjulega nokkrar páskakökur á fimmtudag eða laugardag. Í ár ákvað ég hins vegar að baka þær aðeins fyrr og senda nokkrar til dóttur minnar í Lvív.

Horft yfir stöðuvatnið rétt hjá sumarhúsi Karíne og eiginmanns hennar. …
Horft yfir stöðuvatnið rétt hjá sumarhúsi Karíne og eiginmanns hennar. Myndin er frá í fyrra. Ljósmynd/Karíne

Í gærkvöldi fékk ég sent mjög jákvætt skilaboð. Það var frá vini mínum Eduard sem býr í herteknu borginni Vovtjansk. Við höfðum ekkert heyrt í honum frá því 7. apríl, en það kom í ljós að borgin hafði verið án rafmagns og almennra samskipta í 12 daga. Honum tókst hins vegar að senda skilaboð úr öðrum síma sem náði að tengjast inn á rússneska farsímakerfið. Hann sagði aðeins frá þessu og spurði hvernig við hefðum það en sagði ekkert meira um aðstæður sínar. Rússar eru viljandi að skera á samskipti Úkraínumanna á herteknum svæðum við fólk utan þeirra og reyna svo að ala á lygum, t.d. að Úkraína sé ekki lengur til sem land og að Kænugarður og Karkív hafi verið herteknar af Rússum. Þetta er aðferðafræðin sem Rússar nota til að brjóta niður andstöðu fólks við innrásinni, en ég hef trú á að vinir okkar muni ekki láta þetta á sig fá.

Karkív hefur undanfarna daga áfram verið skotmark stórskotaliðsárása. En af hverju? Karkív er talin vera rússneskumælandi borg og meirihluti íbúanna tala rússnesku. Fjölskyldan okkar talar t.d. líka rússnesku. Úkraínska er hins vegar ríkismálið og það tungumál sem er notað opinberlega. Það hefur ekki verið vandamál hingað til. Fleira og fleira fólk er nú að skipta yfir í úkraínsku.

Þá er rétt að muna að Karkív var aldrei rússnesk borg og fram til 1930 talaði meirihluti íbúa hér úkraínsku. Yfirvöld í Sovétríkjunum fóru hins vegar viljandi gegn menntaða hluta borgarabúa á þessum tíma og borgin var þvinguð í átt að rússneskum áhrifum.

Nú hefur rússneska innrásarliðið ákveðið að Karkív eigi aftur að verða að rússneskri borg og telja að taka eigi á móti þeim sem frelsurum sem bjargi borginni frá ítökum úkraínskra þjóðernissinna. En þetta er algjör mistúlkun á raunveruleikanum og Rússar hafa notað áróður sinn til að setja upp uppskáldaða mynd af sögu Úkraínu. Þetta er svo sagan sem Rússar trúa núna.

Þegar heimamenn mættu svo komu þessara „frelsara“ ekki með fagnaðarlátum, heldur með viðspyrnu, þá hófu Rússar að eyðileggja borgina með hatri sínu og grimmd. Þessi eyðilegging heldur áfram hvern einasta dag og Rússar eru að gera það sama í Maríupol. Hörð átök eiga sér nú stað hér í landinu okkar og eina leiðin í átt að öryggi fyrir okkur og aðrar þjóðir er hernaðar- og efnahagslegur sigur yfir Rússum.

Jaroslav í Ódessu

Óheppnin hefur elt mig síðustu daga, en þegar maður horfir á vandamál og hindranir sem nýjar áskoranir verður lífið áhugaverðara. Þessi bilun í bílnum um daginn hófst sem vandamál með gírkassann, en hélt svo áfram og varð að stórtækum viðgerðum á bílnum og jafnvel smá endurgerð inn í geymslurýminu.

Ég aðstoðaði nokkra vini mína fyrir nokkrum vikum með flutning á eldsneyti og núna hafa þeir í staðinn verið að hjálpa mér að gera við bílinn.

Jaroslav hefur staðið í ströngu síðustu daga við að koma …
Jaroslav hefur staðið í ströngu síðustu daga við að koma flutningabílnum í gang aftur, en bíllinn er nauðsynlegur fyrir alla útkeyrslu sem hann sinnir fyrir sjálboðaliðasamtökin.

Það er nýtt núna að við erum að vinna undir sprengjugný, en það er frekar sérstök tilfinning að vinna að lausn vandamála þegar stórskotaliðssprengjur springa í kringum mann. Þetta gerir aðstæðurnar mun taugatrekkjandi.

Ég fór annars með sjálfboðaliðahópnum í gær í átt að víglínunni, en við fórum með smá páskagóðgæti til hermannanna.

Á næstunni munum við svo hitta fleiri erlenda blaðamenn, en það er meðal annars búið að bóka okkur í viðtal hjá Vice. Það verður því mögulega hægt að sjá þetta starf okkar á miðlinum þeirra innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert