Páskaundirbúningur undir sprengjugný

Karíne reynir að halda í hefðbundinn páskaundirbúning í ár eins …
Karíne reynir að halda í hefðbundinn páskaundirbúning í ár eins og fyrri ár. Kökurnar sendir hún nú meðal annars til vinkonu sinnar og dóttur sem hafa flúið borgina. Ljósmynd/Karíne

Þrátt fyrir linnulausar sprengjuárásir á Karkív reynir Karíne að halda í páskahefðir og bakar páskakökur og málar páskaegg. Sergei náði loks almennilegu myndsamtali við ungan son sinn auk þess að ræða fortíð og framtíð við konuna sína, sem nú býr í öðru landi ásamt syninum. Jaroslav er á meðan kominn í nýtt hlutverk sem er enn nokkuð órætt.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Karíne í Karkív

Sprengjugnýr heyrðist í morgun frá Saltivka, en það er íbúðahverfi hér í útjaðri borgarinnar sem er stöðugt undir árás innrásarhersins. Í gær bakaði ég aftur páskakökur eins og ég hafði gert fyrr í vikunni. Við sendum annan skammt á dóttur okkar í Lvív sem og Elenu og eiginmann hennar, vinafólk okkar sem hefur flúið Karkív. Á venjulegum árum bökum við Elena báðar páskakökur og skiptumst svo á þeim, en í ár getur hún ekki bakað neinar, enda búa þau á heimavist með fullt af öðru fólki.

Elena er leikkona og eiginmaður hennar, Alexander, er leikari og leikstjóri. Ég fjallaði þegar um þau áður, en þau settu meðal annars upp leiksýningar fyrir börn á flótta sem hægt væri að kalla leikræna meðferð fyrir börnin.

Leiklistarparið og vinafólk Karíne, þau Elena og Alexander voru meðal …
Leiklistarparið og vinafólk Karíne, þau Elena og Alexander voru meðal þeirra sem ákváðu að flýja Karkív þegar árásir Rússa hófust.

 

Í dag bakaði ég svo ostaköku og málaði nokkur egg, en við reynum að halda í páskahefðir þrátt fyrir skrítna tíma. Andrúmsloftið verður mun friðsamlegra þegar maður getur staðið í einhverju eins og páskaundirbúningi. Vinna með deig og kökur virkar líka eins og eins konar andleg aðstoð fyrir mig.

Kona sem ég þekki hafði samband í dag, en hún býr í Saltivka en flúði ásamt syni sínum fyrir nokkru. Hún hafði frétt af því að húsið hennar hefði orðið fyrir sprengingu, en í íbúðinni hafði hún skilið eftir nokkra ketti sem gat ekki tekið með sér, en hafði fengið nágrannana til að halda áfram að gefa mat og vatn. Sem betur fer var íbúðin hennar óskemmd og kettirnir í lagi, en það er greinilegt að hún er mjög miður sín að hafa ekki getað tekið þá með sér. Hún var að leita að einhverjum sem gæti tekið einn eða fleiri að sér tímabundið.

Leikhópur þeirra Elenu (efri röð lengst til hægri) og Alexanders …
Leikhópur þeirra Elenu (efri röð lengst til hægri) og Alexanders (efri röð, þriðji til vinstri).

 

Sergei í Lvív

Fimmtugasti og áttundi dagur stríðsins. Annar þungbúinn rigningardagur. Eftir smá vinnu á skrifstofunni fór ég í byggingavöruverslun og keypti nokkra hluti sem ég þurfti til að gera við hluti heima.

Í dag tókst mér loksins aftur að sjá son minn vakandi í gegnum myndasamtal. Það er gott að sjá að hann man enn eftir mér og hann er að þroskast upp í að verða gáfuður og hlýðinn strákur. Við konan rifjuðum upp nokkrar góðar minningar frá lífinu fyrir stríðið og veltum fyrir okkur hvað við gætum gert í framtíðinni. Einhvern tímann verður lífið aftur eðlilegt, einhvern tímann. En lífið verður hins vegar aldrei aftur eins. Það er erfitt að útskýra hversu mikið hefur breyst.

Á morgun ætla ég að reyna að fara út að ganga og skoða nokkra staði í borginni.

Jaroslav í Ódessu

Ég tek nú þátt í áhugaverðu samvinnuverkefni og ég verð að segja að ég er mjög hrifinn af því hversu harðduglegir allir hér eru og með vilja úr stáli. Það er ekkert, af stórum lista vandamála sem koma inn á borð til okkar, sem þeir geta ekki leyst.

Jaroslav er kominn í nýtt verkefni sem hann mun vonandi …
Jaroslav er kominn í nýtt verkefni sem hann mun vonandi upplýsa nánar um á komandi dögum.

 

Það er nokkuð flókin saga, en í dag sá ég nokkra þeirra rífast við einn yfirmanninn þar sem hann reyndi að koma í veg fyrir ákveðnar hliðar sjálfboðastarfsins. Mér finnst líklegast að það sé vegna þess að hann er með skoðanir sem hallast að Rússum, en ég hef svo sem ekki rétt til að dæma neitt um það. Það er hins vegar eina skýringin á ákvörðunum hans.

En við erum hins vegar með stórt plan í vinnslu sem gengur út á allskonar tæknilega útfærslu ef það á að ganga alveg upp. Nú erum við að gera okkar allra besta þannig að þetta plan gangi upp. Ég veit að okkur mun takast það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert