„Menn ætla ekkert að gefast upp“

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi dómsmála- og innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi dómsmála- og innanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, tók um helgina þátt í samstöðu- og baráttufundi vegna máls Julian Assange, stofnanda Wikileaks í Brussel. Ögmundur tók til máls á fundinum ásamt Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtoga Verkamannaflokksins í Bretlandi, og öðrum evrópskum stjórnmálamönnum.

Ögmundur hefur lengi verið ötull stuðningsmaður Assange, sem situr nú inni í Bretlandi. 

„Þetta er liður í alþjóðlegu átaki að þrýsta á að Julian Assange verði látinn laus úr fangelsi í Bretlandi. Þar hefur hann setið í þrjú ár, en áður var hann í sjö ár í sendiráði Ekvador. Nú stendur málið þannig að dómsstólar í Bretlandi hafa úrskurðað að það sé heimilt að framselja hann til Bandaríkjanna,“ segir Ögmundur. 

„Bandaríkjamenn vilja fá hann framseldan, telja að Wikileaks hafi brotið gegn lögum í Bandaríkjunum. En þó er það nú þannig að hann er ekki bandarískur þegn og fyrir okkur sem erum að berjast fyrir hann, við teljum að þetta snúist um allt annað – að þetta snúist um frjálsa pressu og að hans glæpur hafi ekki verið annar en sá að koma á framfæri upplýsingum um stríðsglæpi og mál sem höfðu legið í þagnargildi en áttu að vera opinber að okkar mati,“ segir Ögmundur í samtali við mbl.is.

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Heldur bjartsýninni í hófi

Ögmundur segist vonast til þess að þrýstingur almennings eigi eftir að leiða til þess að Assange verði látinn laus úr haldi í Bretlandi. Hann haldi þó bjartsýninni í hófi. 

„Nú stendur málið þannig að það er í höndum innanríkisráðherra Bretlands að úrskurða hvort að hún fyrir hönd breskra stjórnvalda vilji framselja hann eða ekki, sem hún getur gert. Ef að hún gerir það verður hann laus úr fangelsi og laus allra mála. Ef hins vegar hún vill láta framselja hann til Bandaríkjanna er næsta skref að áfrýja því til breskra dómstóla, og ef það ekki gengur mun málið ganga til Mannréttindadómstólsins í Brussel.

„Það er álitamál hvað gerist. En hitt er víst að það er að rísa mikil alda mótmæla um allan heim þar sem að fólk telur þetta ekki snúast um lögfræði heldur pólitík og frjálsa fjölmiðla og hvort það sé réttlætanlegt að aðilar sem að upplýsa um eitthvað sem á að liggja í þagnargildi að mati stjórnvalda, að það sé hægt að setja plástur á munninn á þeim,“ segir Ögmundur og bætir við;

„Við teljum þetta vera eitthvað sem kemur allri heimsbyggðinni við. Frjáls pressa er forsenda lýðræðissamfélagsins.“

Ögmundur segir að fari svo að framselji eigi Assange til Bandaríkjanna að ráðist verði í næstu skref. „Menn ætla ekkert að gefast upp,“ segir hann. 

„Ég tók eftir því að Jeremy Corbyn sagði í sinni ræðu að það væri hans tilfinning að þetta væri orðin öflug alheimshreyfing, fyrir þessu. Það er það sem við bindum vonir við, að það rísi svo mikil mótmælaalda að það verði ekki stætt á öðru en að láta manninn lausan,“ segir Ögmundur og bætir við:

„Staðreyndin er sú að Wikileaks hefur aldrei verið sakað um að reiða fram rangar upplýsingar. Aldrei. Heldur bara upplýsingar sem að stjórnvöld í ýmsum löndum vilja ekki að verði á allra vitorði. Það er glæpurinn,“ segir Ögmundur að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina