Heimsstyrjaldartal Lavrovs hræðsluáróður

Úkraínskur hermaður kveikir á kertum í páskaguðsþjónustu í Kænugarði.
Úkraínskur hermaður kveikir á kertum í páskaguðsþjónustu í Kænugarði. AFP

Dimitrí Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir heimsstyrjaldartal rússneska kollega síns vera til þess fallið að hræða önnur ríki frá því að sýna Úkraínu stuðning. 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur varað við því að hættan á þriðju heimsstyrjöldinni sé „alvarleg“.

Kúleba sagði í tísti að Rússland finni á sér að Úkraína muni fara með sigur af hólmi í stríðinu. 

„Rússland missir síðustu von sína á að hræða heiminn frá því að styðja Úkraínu. Til þess er tal um „raunverulega“ hættu á þriðju heimsstyrjöldinni. Þetta þýðir einfaldlega að Rússland finnur á sér að Úkraína mun fara með sigur af hólmi,“ skrifaði Kuleba.

„Þess vegna þarf heimurinn að auka við stuðning sinn við Úkraínu svo við stöndum styrkum fótum og vörð um öryggi Evrópu og heimsins alls.“

Tíst Kúleba var skrifað á ensku eftir að Lavrov sagði að vopnasendingar Vesturlanda til Úkraínu þýddu að Atlantshafsbandalagið væri í raun í stríði við Rússa og því væri talsverð hætta á að átökin færðust í aukana.

Horfa til Maríupolar

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, mun hitta Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Moskvu síðar í dag. Væntingar til árangursríkra viðræðna eru ekki miklar þar sem samtöl Pútíns við hina ýmsu leiðtoga um stríðið hafa skilað litlu til þessa.

Útlit er fyrir að viðræður Pútíns og Guterres muni beinast að hinni stríðshrjáðu Maríupol. Þrátt fyrir að Rússar hafi lýst yfir sigri þar hefur þeim ekki tekist að taka yfir Asovstal stálverksmiðjuna þar sem bæði almennir borgarar og hermenn halda til. 

Úkraínsk yfirvöld hafa beðið Guterres að tryggja flóttaleið fyrir almenna borgara frá verksmiðjunni. 

Þá er útlit fyrir að Guterres fundi með Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í Úkraínu á fimmtudag.

Bandarísk stjórnvöld ætla sér að ræða við önnur ríki um varnarmál í Úkraínu í dag. 

Lifandi fréttastreymi BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert