Sóttvarnareglur við landamærin dæmdar ólögmætar

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Ríkisstjórn Nýja-Sjálands braut í bága við lög með hertu landamæraeftirliti sínu í kórónuveirufaraldrinum, samkvæmt dómi Hæstaréttar í Wellington, höfuðborgar Nýja-Sjálands. Í dómnum kemur fram að ríkisstjórnin hafi svipt borgara sína réttinum til að snúa aftur heim. 

Í 140 blaðsíðna ákvörðun sinni sagði dómarinn Jillian Mallon að einangrunar- og sóttkvíarferlið hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til persónulegra aðstæðna fólks. Hún sagði þó að kerfið hafi verið mikilvægur þáttur í viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum. 

Aftur á móti sagði Mallon að með því að taka ekki til greina sérstakar aðstæður fólks hafi ríkisstjórnin hegðað sér „ólöglega og brotið í bága við rétt Nýsjálendinga til þess að koma inn í landið.“

Komust ekki fyrir á sóttvarnahótelum

Aðgerðasinnahópurinn „Grounded Kiwis“ sótti málið gegn ríkisstjórninni. Hann hefur talað fyrir vægari sóttvarnaaðgerðum og sagt að Nýsjálendingar erlendis hafi verið sviptir réttindum sínum og að sumir þeirra hafi orðið fyrir miklu áfalli þegar þeim tókst ekki að snúa aftur til heimalandsins. 

Reglurnar sem dómurinn tók til skoðunar voru í gildi frá 1. september til 17. desember í fyrra. Á því tímabili fór spurn eftir herbergjum á sóttvarnahótelum langt fram úr framboði og þúsundir komust ekki að. Varð þetta til þess að fjöldi Nýsjálendinga komst ekki heim til sín, þar sem þeim var gert að dvelja á sóttvarnahóteli við komuna.

mbl.is