Þúsund börn aðskilin frá foreldum sínum

Alejandro Mayorkas.
Alejandro Mayorkas. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum vinna enn að því að sameina um eitt þúsund börn innflytjenda og foreldra þeirra. Börnin voru aðskilin frá foreldum sínum við komuna til Bandaríkjanna í skjóli umdeildra laga Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta frá 2018. 

Öryggismálaráðherra Bandaríkjanna, Alejandro Mayorkas, kom fyrir Bandaríkjaþing í dag við umræðu um fjárveitingar til ráðuneytis síns. Mayorkas sagði að starfshópur hafi verið skipaður af Joe Biden Bandaríkjaforseta og að í kjölfar vinnu þeirra starfshóps hafi 200 börn verið sameinuð foreldrum sínum. 

Þrátt fyrir það „eru enn um það bil 1.000 börn til viðbótar sem eru enn aðskilin,“ sagði Mayorkars. Yfirvöld hafa þegar haft samband við foreldra um 500 þeirra. 

Undir stjórn Biden hefur verið ákveðið að börn sem voru aðskilin frá foreldum sínum við landamæri Bandaríkjanna við Mexíkó á forsetatíð Trump verði sameinuð foreldrum sínum í Bandaríkjunum. Ekki hefur náðst samstaða um hvort að greiða eigi fjölskyldunum miskabætur. 

Þrátt fyrir orð Mayorkas benda dómskjöl í fyrri málum vegna stefnu Trump til þess að um 5.500 hafi verið aðskilin frá foreldrum sínum á forsetatíð hans. Tvö þúsund hafi verið sameinuð þeim að nýju síðan Biden tók við.

mbl.is