Fimmtán ára drengur meðal fórnarlamba

Mynd frá 24. apríl sem tekin var skömmu eftir loftárás …
Mynd frá 24. apríl sem tekin var skömmu eftir loftárás Rússa á borgina. AFP/Oleksandr Gimanov

Unglingsdrengur lést í loftárás Rússa í dag á íbúðabyggingu í hafnarborginni Ódessu við Svarta hafið, samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum.

„Vegna flugskeytaárásarinnar á Ódessu eyðilagðist íbúðabygging sem fimm manns voru inni í á tíma árásarinnar. Fimmtán ára strákur lést,“ segir í skilaboðum borgaryfirvalda á Telegram.

Ekki tekist að ná borginni á sitt vald

Ódessa er hafnarborg í suðurhluta Úkraínu. Dmítró Kúleba utanríkisráðherra Úkraínu hefur áður sagt að eini tilgangur Rússa með loftárásum á borgina sé að skapa hrylling og ótta. 

Borgin er að mestu rússneskumælandi og mikil menningarmiðstöð í landinu. Rússar hafa reynt að ná borginni á sitt vald en tilraunir þeirra hafa ekki gengið upp.

mbl.is