Sannleikurinn komi fram 15 árum síðar

Kate og Gerry McCann árið 2017.
Kate og Gerry McCann árið 2017. AFP

Foreldrar bresku stúlkunnar Madeleine McCann segja nauðsynlegt að komast að sannleikanum um hvarf hennar. 15 ár eru liðin síðan glæpurinn var framinn þegar fjölskyldan var í fríi í Portúgal.

„Á þessu ári eru liðin 15 ár síðan við sáum Madeleine síðast. Þetta ár er ekkert erfiðara en önnur en það er ekkert auðveldara heldur. Þetta er mjög langur tími,“ sögðu þau Kate og Gerry McCann í yfirlýsinu á vefsíðu sinni.

Madeleine McCann hvarf frá Praia da Luz í Portúgal 3. maí 2007 þegar hún var þriggja ára. Mikil leit hófst í kjölfarið að henni og fjölluðu fjölmiðlar um allan heim um málið.

Húsið í Lagos í Portúgal, þar sem Madeleine hvarf.
Húsið í Lagos í Portúgal, þar sem Madeleine hvarf. AFP

„Hvað sem gerist þá verður Madeleine ávallt dóttir okkar, auk þess sem virkilega hryllilegur glæpur hefur verið framinn,“ sögðu foreldrar hennar.

„Það er rétt samt sem áður að óvissa býr til veikleika; þekking og vissa veita styrk og af þessari ástæðu þurfum við nauðsynlega að fá svör og að sannleikurinn komi fram.“

Madeleine McCann minnst með kertaljósum.
Madeleine McCann minnst með kertaljósum. AFP

Í síðasta mánuði greindu portúgölsk yfirvöld frá því ásamt þýskum saksóknurum að dæmdur þýskur nauðgari, kallaður Christian B, væri grunaður um hvarf hennar. Hann hefur ekki verið ákærður í málinu, auk þess sem líkið hefur ekki fundist. 

Christian B afplánar nú sjö ára dóm í borginni Oldenburg í norðurhluta Þýskalands fyrir að nauðga 72 ára bandarískum ferðamanni í Praia da Luz árið 2005.

mbl.is