Viðsnúningurinn endurspegli gliðnun í landinu

Á tröppum Hæstaréttar Bandaríkjanna í dag.
Á tröppum Hæstaréttar Bandaríkjanna í dag. AFP

Væntanlegur viðsnúningur Hæstaréttar Bandaríkjanna, á dómafordæminu sem fólst í dómsmálinu Roe gegn Wade, mun draga dilk á eftir sér.

Gæti hann mögulega haft áhrif á önnur félagsmál, eða mannréttindi, í Bandaríkjunum sem hluti repúblikana er mótfallinn, til að mynda hjónabönd samkynhneigðra.

Gliðnun hefur átt sér stað innan landsins þar sem stjórnvöld og dómstólar hafa orðið íhaldssamari samhliða því sem almenningur verður frjálslyndari. Endurspegla því ákvarðanir yfirvalda oft og tíðum ekki skoðanir almennings. Ólíklegt er þó að ákvörðun um ógildinguna komi til með að draga úr fylgi repúblikanaflokksins en minnihluti kjósenda þeirra er konur.

Þetta segir Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands.

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessir í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands.
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessir í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Verði ólöglegt í næstum helming ríkja

Í nótt að íslenskum tíma var gögnum lekið á vef Politico þar sem fram kemur að meirihluti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna sé ósammála dómi réttarins í málinu Roe gegn Wade frá árinu 1973, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þungunarrof stæðist stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómafordæmið hefur hingað til reynst lagalegur grundvöllur fyrir því að leyfa þungunarrof í Bandaríkjunum.

Búist er við að Hæstiréttur taki afstöðu í júlí varðandi dómafordæmið en verði það fellt úr gildi mun það falla í hendur einstakra ríkja að setja lagaramma um þungunarrof. Talið er að liðlega helmingur ríkjanna muni banna þungunarrof og er þá aðallega horft til hinna svokölluðu „rauðu ríkja“ þar sem repúblikanar eru í meirihluta.

Leiti til ólöglegra þjónustuveitenda

„Það sem við höfum verið að sjá upp á síðkastið er að æ fleiri ríki eru að takmarka þennan rétt innan sinna ríkjamarka. Í nokkrum ríkjum eru líka til „trigger laws“ sem er lagasetning sem tæki gildi ef Roe [gegn Wade] væri fellt úr gildi. Þá myndi ríkið um leið banna að fullu eða næstum því að öllu leyti þungunarrof,“ segir Silja í samtali við mbl.is.

Ef ógildingin verður niðurstaðan munu íbúar þeirra ríkja neyðast til að leita til ólöglegra þjónustuveitenda eða ferðast til annarra ríkja með tilheyrandi kostnaði sem kemur niður á fólkinu og fjölskyldum þeirra, segir Silja.

Einungis örfá ríki hafa þegar sett lög sem að tryggja aðgengi að þungunarrofi óháð alríkislögum. Eru það ríki undir stjórn demókrata á Vesturströndinni og í norðausturhluta Bandaríkjanna. 

Stjórnvöld íhaldssamari en almenningur frjálslyndari

Undanfarin ár hefur hreyfing innan Bandaríkjanna unnið hörðum höndum að því að takmarka aðgengi að þungunarrofi og gera þeim sem bjóða upp á þjónustuna erfiðara um vik. Að sögn Silju hefur gliðnun átt sér stað í landinu en samhliða því sem almenningur verður frjálslyndari verða stjórnvöld og dómstólar íhaldssamari. 

„Það eru svo margar ákvarðanir sem verið er að taka sem eru íhaldssamari en sjónarmið almennings myndu gefa til kynna.“

Þrátt fyrir það þykir henni ólíklegt að ógildingin, ef hún verður þá að veruleika, muni hafa neikvæð áhrif á fylgi repúblikana, enda þjónar þessi ákvörðun kjósendum þeirra að einhverju leyti, en mun færri konur kjósa stjórnmálaflokkinn en karlar nefnir hún sem dæmi. 

Hún segir þó marga stuðningsmenn demókrata binda vonir við að þessi aðgerð komi til með að virkja kjósendur og skapa drifkraft meðal þeirra, sem mun mögulega skila sér í aukinni aðsókn í þingkosningum í haust.

Silja er þó ekki jafn sannfærð og vísar m.a. til þess sem gerðist í Texas þegar þrengt var að aðgengi til þungunarrofs en það virtist ekki skapa neina fjöldahreyfingu meðal demókrata.

Viðtækar afleiðingar

Fari svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna snúi fordæminu við gæti það haft víðtækar afleiðingar í för með sér, að sögn Silju, og haft áhrif á önnur mál er varða mannréttindi fólks í landinu. Sem dæmi nefnir Silja hjónabönd samkynhneigðra. 

„Um leið og það er byrjað að grafa undan þessum réttindum þá opnar það á alls konar annað.“

Þá gæti ógildingin haft áhrif á dóma, sem varða rétt til verndar einkalífs, þar sem stuðst var við Roe gegn Wade dómafordæmið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert