Sagðir skipuleggja skrúðgöngu í Maríupol

Hafnarborgin Maríupol.
Hafnarborgin Maríupol. AFP

Úkraínumenn hafa sakað Rússa um skipulagningu herskrúðgöngu í borginni Maríupol 9. maí til að fagna sigrinum yfir nasistum í síðari heimsstyrjöldinni.

Stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, sögðu að embættismaður frá rússnesku forsetaskrifstofunni hafi komið til borgarinnar, sem hefur að mestu verið eyðilögð í rúmlega tveggja mánaða innrás Rússa, til að hafa yfirumsjón með skipulagningu skrúðgöngunnar.

„Maríupol verður miðpunktur fagnaðar,“ sagði í yfirlýsingu frá leyniþjónustu úkraínska hersins.

„Verið er að hreinsa brak, lík og sprengjur sem ekki hafa sprungið af helstu götum borgarinnar,“ sagði þar einnig.

Rússar hafa fullyrt að þeir hafi náð Maríupol undir sitt …
Rússar hafa fullyrt að þeir hafi náð Maríupol undir sitt vald, að undanskildu svæðinu við verksmiðjuna. AFP/Maxar Technologies

Maríupol er á meðal þeirra borga sem hafa orðið hvað verst úti í stríðinu. Hópur úkraínskra hermenna heldur enn til í stálverksmiðjunni Azovstal sem er umsetin af rússneska hernum.

„Stór og mikil áróðursherferð er framundan. Rússum verða sýndar sögur um „ánægju“ heimamanna yfir því að hitta þá sem hafa hertekið borgina,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

mbl.is