„Stríðið stoppar ekki líf okkar hér í hafnarborginni“

Þrátt fyrir allt gengur lífið áfram sinn vanagang hjá fjölmörgum …
Þrátt fyrir allt gengur lífið áfram sinn vanagang hjá fjölmörgum ferfætlingum, eins og þessum sem fagnaði sumri og bættri sprettu í útjaðri Ódessa. Ljósmynd/Jaróslav

Sprengingar og hávaði vegna þeirra heldur áfram að vera daglegt brauð fyrir íbúa Karkív. Eftir sprengjuárásir Rússa undanfarna daga á innviði almenningssamganga hefur þeim nú tekist að stoppa þær alveg. Í Ódessu eru Jaróslav og félagar í sjálfboðasamtökunum að leggja lokahönd á að koma upp nýrri þjónustustöð til að ná betur að aðstoða íbúa í borginni. Þar, eins og víðar í Úkraínu, reynir fólk að halda áfram með hefðbundið líf sitt og í kvöld verða djasstónleikar við höfnina.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Föstudagur 6. maí

Karíne í Karkív

Það var minna um stórskotaliðsárás á Karkív í dag en í gær, en við heyrðum samt fjölda sprenginga yfir daginn. Ég varði deginum í skrif vegna diplómanámsins og að hlusta á fyrirlestra í fjarnámi. Í gær heyrðum við í sprengjum allan daginn, en nóttin þar á undan hafði verið nokkuð róleg. Sprengjuárásirnar hófust hins vegar tímanlega klukkan 7 í gærmorgun og þær voru nokkuð nálægt okkur og háværar eftir því.

Í gær heyrði ég af því að Rússar hefðu meðal annars gert árásir á Feldman náttúrugarðinn sem er í úthverfi í norðausturhluta borgarinnar. Á þeim tímapunkti sem árásirnar urðu voru sjálfboðaliðar að flytja vatnabuffalóa úr garðinum. Fyrir innrás Rússa voru um fimm þúsund dýr í garðinum, en tekist hefur að flytja flest dýrin í burtu. Fimmtán ára drengur var á meðal þeirra sem létust í árásunum í vikunni, en hann var að hjálpa foreldrum sínum að gefa dýrunum að borða og flytja á brott. Samtals létust sex manns í árásunum á garðinn.

Nýlega var verk eftir úkraínska listakonu að nafni María Primatsjenkó boðið upp og selt fyrir 500 þúsund Bandaríkjadali. Verkið heitir Blóm sem uxu við rafal 4, en það var málað árið 1990 og er vísun í kjarnorkuslysið í Tjernobyl árið 1986. Verkið var í einkaeigum, en eigandinn gaf það í söfnun mun styðja samtök sem hafa keypt búnað fyrir herdeildir landsins.

Verkið Blóm sem uxu við rafal 4 eftir Maríu Primatsjenkó …
Verkið Blóm sem uxu við rafal 4 eftir Maríu Primatsjenkó var boðið upp og selt fyrir 500 þúsund Bandaríkjadali.

Verkið hafði áður verið á safni í nágrenni Kænugarðs, en verið komið í burtu þaðan þegar átökin hófust. Safnið varð fyrir sprengjuárás Rússa og í kjölfarið varð þar talsverður eldur.

Í gær greindu yfirvöld í Karkív frá því að allt sporvagnakerfi borgarinnar væri nú óvirkt eftir sprengjuárásir Rússa á innviði fyrir sporvagnakerfið. Í fyrradag sprengdu þeir einnig upp strætisvagnaflota borgarinnar. Þeir halda áfram að eyðileggja borgina okkar.

Jarósalv í Ódessu

Mér líður vel þar sem ég ligg upp í rúmi og hugsa um áskoranir morgundagsins. Ég ætla að vakna fyrr en flesta daga því ég þarf að taka saman allt trommudótið mitt sem við félagarnir munum svo flytja á réttan stað. Yfir daginn verð ég á skrifstofunni að undirbúa ýmsa hluti og svo LOKSINS: Fyrstu djasstónleikarnir mínir við höfnina. Stríðið stoppar ekki líf okkar hér í hafnarborginni. Fólk reynir að halda rekstri áfram þrátt fyrir ástandið.

Við vinnum annars að fullu að því að koma upp nýju þjónustumiðstöðinni okkar í þessum borgarhluta. Fullt af fólki sem ég þekki ekki hefur komið að því að hjálpa teyminu. Saman getum við fært fjöll!

Sergei í Lvív

Sjötugasti og fyrsti dagur stríðsins. Það er erfitt að trúa því að svona langt er síðan stríðið hófst. Stundum kemur upp í hugann að þetta sé aðeins slæmur draumur sem taki ekki enda. Mér líður hins vegar mjög vel í dag, kom miklu í verk í vinnunni, aðstoðaði pabba með heimilisstörfin og veðrið er frábært. Á morgun fer ég örugglega út að ganga í garðinum. Ég náði einnig að vinna talsvert að tónlist sem ég er að semja. Maður reynir að lifa eins hefðbundnu lífi og hægt er.

Það er alltaf jafn erfitt að hlusta á fréttir frá víglínunni. Allur heimurinn hefur líklegast heyrt af frækinni vörn hermanna okkar í stál­verk­smiðjunni Azovstal í borg­inni Maríu­pol, en það er síðasti hluti borgarinnar sem Rússar höfðu ekki náð á sitt vald. Hermenn okkar munu verjast þar fram í dauðann og ekki gefast upp. Ég vona samt að það takist að semja um flutning þeirra.

Eiginkonu minni og syni gafst annars tækifæri í gær að fara í stutta ferð niður að sjó [innsk. blm: Þau flúðu yfir til Póllands eftir að stríðið hófst]. Ég er mjög ánægður með að þau hafi getað gert sér glaðan dag, en auðvitað sakna ég þeirra daglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert