Telur lögmenn misnota niðurstöðurnar

Á myndinni má sjá tólf vikna gamalt fóstur.
Á myndinni má sjá tólf vikna gamalt fóstur. Wikipedia

Lögmenn sem mæla gegn þungunarrofi misnota niðurstöður úr rannsókn vísindamannsins Giandomenico Iannetti, að hans mati, til þess að afvegaleiða umræðuna. 

Í síðustu viku láku gögn í fjölmiðla sem sýndu fram á að hæstiréttur Bandaríkjanna hefði í hyggju að snúa við fordæminu sem byggt hefur verið á frá því að dómur féll í máli Roe gegn Wade og tók af skarið um að það bryti gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna að banna þungunarrof. 

Í frétt Guardian kemur fram að það gæti haft í för með sér að tuttugu og sex ríki Bandaríkjanna leggi bann við þungunarrofi. Málið sem gögnin lúta að er mál Dobbs gegn Jackson Women's Health Organisation, þar sem reynir á þungunarrofsbann Mississippi sem miðar við fimmtán vikna gamalt fóstur. 

Niðurstaðan úrelt vegna framþróunar í vísindum

Rannsókn Iannetti gengur út á það nota myndatöku til þess að kortleggja það hvernig heilinn bregst við sársauka. 

Rökin, sem notuð eru gegn þungunarrofsbanni, eru þau að vísindum hafi fleytt fram og því sé niðurstaðan í Roe gegn Wade úrelt, enda sé ekki lengur rétt að halda því fram að fóstur finni ekki fyrir sársauka fyrir tuttugustu og fjórðu viku. 

Þessi rök eru reist á grein sem birtist í Journal of Medical Ethics árið 2020 eftir Dr. Stuart Derbyshire, prófessor í sálfræði við háskólann í Singapore. 

Í greininni er vísað til niðurstöðu rannsóknar Iannetti, sem túlkuð var á þann veg að heilabörkur væri ekki nauðsynlegur til þess að viðkomandi gæti fundið fyrir sársauka. 

Gefa engan veginn til kynna að fóstur finni sársauka fyrr

Iannetti er prófessor í taugavísindum sem stýrir í dag tilraunastofu á Ítalíu en eyddi síðustu sextán árum í rannsóknir hjá háskólunum UCL og Oxford. Ályktun Berbyshare er óréttmæt og langsótt að hans mati. 

„Mínar niðurstöður gefa engan veginn til kynna að heilabörkurinn sé ekki nauðsynlegur til þess að finna sársauka. Mér þykja þær hafa verið túlkaðar og notaðar á klókan hátt til rökstuðnings, en mér er órótt að vita til þess að vinna mín sé notuð sem grundvallarrök í þessu máli.“

Hann kveðst ekki hafa vitað af því að niðurstöðurnar hafi verið notaðar með þessum hætti fyrr en bandarískir kollegar hans gerðu honum viðvart. Þá hafi hann aðstoðað við að útbúa andsvör við þessum staðhæfingum, en sér ekki fleiri leiðir færarr til þess að bregðast við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert