Ætlar að hleypa Trump aftur á Twitter

Elon Musk keypti Twitter fyrir 44 milljarða dala í síðasta …
Elon Musk keypti Twitter fyrir 44 milljarða dala í síðasta mánuði. Samsett mynd

Elon Musk segist ætla að „snúa við varanlegu banni“ fyrrverandi forseta Bandaríkjanna Donald Trump á Twitter og hleypa honum aftur á samfélagsmiðilinn, að því er New York Times greinir frá. 

Musk, sem gerði samning í síðasta mánuði um að kaupa Twitter fyrir 44 milljarða dala, sagði á ráðstefnu Financial Times að ákvörðun fyrirtækisins um að meina Trump aðgang að Twitter í janúar á síðasta ári fyrir tíst um óeirðirnar í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, væru mistök „vegna þess að hún einangrar stóran hluta landsins og leiddi ekki til þess að Donald Trump hefði ekki rödd“.

Hann bætti við að það væri „siðferðislega rangt og algjörlega heimskulegt“ og að varanlegt bann grafi í grundvallaratriðum undan trausti á Twitter.

Milljarðamæringurinn Musk, sem er einnig forstjóri Tesla og SpaceX, hefur lengi stutt málfrelsi og hefur sagst vera óánægður með hvernig Twitter ákvað hvað mætti ​​og mætti ​​ekki birta á netinu.

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, var bannaður á Twitter í …
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, var bannaður á Twitter í janúar á síðasta ári. AFP/Scott Olson

Trump hefur ekki tjáð sig um það hvort að hann muni snúa aftur á Twitter í kjölfar þessarar yfirlýsingar Musk. Hann sagði þó í síðasta mánuði að hann hefði ekki áhuga á því þótt að Musk myndi kaupa Twitter og að hann ætlaði sér að vera á samfélagsmiðlinum Truth en Trump stofnaði hann eftir að hann var bannaður á Twitter.

mbl.is