Hætt við flugtak eftir uggvekjandi myndir

Flugvél á Ben Gurion-flugvellinum. Mynd úr safni.
Flugvél á Ben Gurion-flugvellinum. Mynd úr safni. AFP

Flugvél sem var á leið í loftið frá Ben Gurion-flugvellinum í Ísrael í morgun var snúið aftur að flugstöðvarbyggingunni eftir að farþegar tilkynntu að þeir hefðu fengið myndir í síma sína, sem sýndu flugvélar hrapa. Stóð þeim uggur af myndunum.

Flugstjórinn ákvað að hætta við flugtak eftir að þetta varð ljóst og tilkynnti myndasendingarnar til öryggisdeildar flugvallarins.

Greint er frá þessu á vef dagblaðsins Jerusalem Post, og segir þar að verið sé að skoða farþegana og farangur vélarinnar að nýju.

Að lokinni þeirri skoðun er gert ráð fyrir flugtaki á eftir, en förinni er heitið til Tyrklands.

Talsmaður flugmálayfirvalda hefur sagt að svo virðist sem myndirnar hafi verið sendar í gegnum AirDrop-möguleikann á iPhone-snjallsímum. Ekki sé um að ræða árás tölvuþrjóta.

mbl.is