Fá 997 milljónir dala vegna hrunsins í Miami

Surfside-íbúðarhúsið í Miami.
Surfside-íbúðarhúsið í Miami. AFP

Eftirlifendur og fjölskyldur þeirra sem létust í hruni Surfside-íbúðarhúss við ströndina nálægt Miami á síðasta ári hafa náð sátt upp á að minnsta kosti 997 milljónir bandaríkjadala, að sögn lögfræðings stefnenda.

„Sáttin er núna 997 milljónir dala. Það verða auk þess um það bil hundrað milljónir dala sem við munum fá fyrir fórnarlömbin,“ sagði lögfræðingurinn Carlos Silva.

Hluti af Champlain Towers South, 12 hæða byggingu sem byggð var árið 1981 í Surfside, bæ norður af Miami Beach, hrundi 24. júní 2021 meðan tugir íbúa hennar sváfu.

98 létust í hruninu.
98 létust í hruninu. AFP

Fyrir utan ungling sem bjargað var nokkrum klukkustundum eftir að turninn hrundi, fundu leitarmenn enga eftirlifendur í rústunum og einbeittu sér fljótlega að því að endurheimta líkamsleifar.

Alls létust 98 í hruninu, en síðasta líkið fannst tæpum mánuði síðar. Nákvæm ástæða fyrir hruninu er enn óþekkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert